Raforkuöryggi er þjóðaröryggi. Jarðhræringar í og við Grindavík undanfarnar vikur hafa undirstrikað mikilvægi raforkumála fyrir þjóðaröryggi Íslands. Afhendingaröryggi raforku til landsmanna hefur sjaldan verið mikilvægara en nú.

Stór hluti raforkuframleiðslu á hættusvæðum

Við skoðun kemur í ljós að stór hluti raforkuframleiðslu Íslands er á eða nálægt jarðhitasvæðum eða virkum eldfjöllum og sprungusvæðum.  Gróft áætlað eru um 90% af stærstu orkuverum íslendinga, 20 MW og stærri, innan við 20 km frá þekktum sprungusvæðum, eldfjöllum og plötuskilum Evrasíu- og Norður Ameríku flekanna.  Þessir kerfislega mikilvægu innviðir nálægt þekktum jarðfræðilegum hættusvæðum, sem sum hver eru komin á tíma og beðið er eftir að fari af stað hvað og hverju, setja raforkuframleiðslu Íslands í hættu.  Sem dæmi má nefna að tvær mikilvægar vatnsaflsvirkjanir eru staðsettar rétt við Heklu, einu virkasta eldfjalli Íslands, Búrfellsvirkjun í um 14 km fjarlægð, og Sultartangavirkjun í um 19 km fjarlægð . Á kortinu sem fylgir greininni (heimild:  Alta) sést að meginþorri stærstu raforkuvirkjana Íslands eru á eða við plötuskil, sprungusvæði og nýtt hraun (grár litur á kortinu). Hringurinn utan um bláu boxin (vatnsafl) og rauðu boxin (jarðvarmi) táknar afl viðkomandi virkjunar, því stærri hringur því meira afl.  Til að setja þetta í samhengi þá má benda á að Skaftáreldahraun rann um 65 km vegalengd (heimild: Veðurstofa Íslands).

Ástæða þess að vatnsafls- og jarðhitavirkjanir eru staðsettar með þessum hætti er sú að jarðhitinn finnst á og við jarðhitasprungur sem gera það að verkum að hiti í jörði leitar upp í gegnum sprungurnar.  Að sama skapi finnst vatnsafl nálægt ísi lögðum fjöllum og jöklum sem bráðna á sumrin og fylla vatnslónin,  vatnsforða vatnsaflsvirkjana t.d. Þórisvatn, sem er eitt stærsta og mikilvægasta uppistöðulón vatnsaflskerfis Íslands.  Þannig þarf að staðsetja vatnsaflsvirkjanir þar sem vatnið er að finna og jarðhitavirkjanir þar sem jarðhitann er að finna.  Ekki er hægt að staðsetja þessa tegund raforkuframleiðslu annars staðar með hagkvæmu móti.

Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að dreifa áhættunni, dreifa raforkuframleiðslu inn á jarðfræðilega örugg svæði?

Að framansögðu er ljóst að það verður ekki gert með vatnsafli né jarðhita.  Hver er þá lausnin?

Vindorka á jarðfræðilega örugg svæði

Vindorku er hægt að nýta víða á Íslandi.  Hægt er að setja vindlundi upp á svæðum sem eru jarðfræðilega örugg og tryggja þannig að jarðhræringar stofni ekki þessari tegund raforkuframleiðslu landsmanna í hættu.

StormOrka vinnur að uppbyggingu vindlundar að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð sem er á jarðfræðilega öruggu svæði.   Landið var sérstaklega valið út frá jarðlögum enda er svæðið utan við helstu sprungu- og jarðhræringasvæði landsins, staðsett á stöðugu basalts bergi utan jarðskálftasvæða.

Af hverju að setja öll eggin í sömu körfu?

Illa hefur gengið að koma nýjum grænorku verkefnum í gegnum leyfisveitingaferlið á Íslandi, sem getur tekið áratugi, og við það bætist langur byggingartími, um 3-5 ár.  Það er fyrir löngu kominn tími á að rammaáætlun sé felld niður og að leyfisveitingaferli grænnar raforku verði einfaldað í 1 leyfi sem hægt er að sækja á 1 ári.

Staðsetning raforkuframleiðslu á Íslandi skiptir máli.  Núverandi raforkukerfi er að miklu leyti byggt á eða nálægt svæðum þar sem verulegrar jarðhræringaráhættu gætir.  Ef illa fer, líkt og stefndi í nýverið í Svartsengi, getur það haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir heimili, fyrirtæki og efnahag landsins.

Dæmin sýna að langan tíma tekur að koma nýjum raforkuinnviðum í gegnum leyfisveitingaferilinn á Íslandi, jafnvel áratugi, og við það bætist langur byggingartími, um 3-5 ár. Straumlínulaga þarf leyfisveitingaferlið strax.

Vindorkan hentar mjög vel á svæðum þar sem jarðhiti eða vatnsafl finnst ekki, þar sem jarðhræringar stofna raforkuinnviðum ekki í hættu.

Er ekki kominn tími til að flýta byggingu vindlunda á slíkum svæðum til að dreifa áhættunni af framleiðslu grænnar raforku áður en í óefni stefnir?

Höfundur er framkvæmdastjóri StormOrku.