Það er ánægjulegt að samstaða og samhljómur sé að myndast meðal verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins í aðdraganda næstu kjarasamninga á hinum almenna markaði.

Nýtt bandalag stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins funduðu milli jóla og nýárs og gáfu í kjölfarið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem aðilar vinnumarkaðarins kveðast sammála um að meginverkefni verði að ná niður verðbólgu og vaxtastigi.

Innan þessarar breiðfylkingar virðist vera sá skilningur að hóflegar launahækkanir séu forsenda þess að ná fram verðstöðugleika og lækkun vaxtastigs. Það hlýtur að teljast til einna stærstu tíðinda nýliðins árs að forysta verkalýðshreyfingarinnar hafi öðlast þennan skilning.

Vissulega hefur Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, talað skynsamlega á köflum en á sama tíma hefur Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ítrekað talað fyrir því að hver króna sem tapast hafi vegna verðbólgu og vaxtahækkana yrði sótt í komandi kjarasamningum. Minna hefur heyrst í Ragnari en vanalega undanfarnar vikur. Aftur á móti hefur verið tekið eftir breyttum tón í málflutningi Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. Þannig var haft eftir henni þegar tilkynnt var um hina nýju breiðfylkingu verkalýðshreyfingarinnar að stefnt yrði að hóflegum launahækkunum til að heyra niður verðbólgu hratt og örugglega: ef allt gengi að óskum yrði hægt að ganga frá tímamótasamningi hratt og örugglega.

Þá stendur eftir spurningin hvort verkalýðsforystan leggi saman skilning í hugtakið „hófleg launahækkun“ og annað fólk? Það á eftir að koma í ljós.

Af því sögðu er ljóst að næstu kjarasamningar munu að stærstum hluta ráðast af samskiptum aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld á næstu vikum. Stefán Ólafsson, félagsfræðingur og starfsmaður Eflingar, hefur sýnt spil verkalýðshreyfingarinnar í þeim efnum. Í grein sem hann birti í Heimildinni á jóladag kemur fram að það sem verkalýðshreyfingin mun gera kröfu á stjórnvöld í kjarasamningunum muni kosta ríkissjóð 25 milljarða í aukin útgjöld á ári hverju. Vafalaust mun sá kostnaður aukast enn frekar þegar reikniglöggir menn kostnaðarmeta tillögur verkalýðshreyfingarinnar um að færa millifærslukerfin í það form sem þau voru árið 1990.

Fjárlagafrumvarp þessa árs gerði ráð fyrir að hallinn af rekstri ríkissjóðs yrði um fimmtíu milljarðar. Eftir meðferð þingsins á frumvarpinu fyrr í vetur er ljóst að hann verður umtalsvert meiri. Óheft þensla ríkisútgjalda á undanförnum árum á mikinn þátt í verðbólgunni. Tillögur sem lúta að því að auka ríkisútgjöld enn meira og það til frambúðar eru ekki framlag til þess að ná fram efnahagslegum stöðugleika og lægri vöxtum. Að minnsta kosti ef ekki verður ráðist í meiri háttar niðurskurð á móti þeirri útgjaldaaukningu sem tillögur verkalýðshreyfingarinnar fela í sér og engar líkur eru á slíku.

Seðlabankinn horfir ekki í baksýnisspegilinn þegar kemur að vaxtaákvörðunum. Og Seðlabankinn tekur ekki heldur viljann fyrir verkið þegar kemur að mati á svigrúmi til vaxtalækkana. Hann tekur hins vegar mikið mark á verðbólguvæntingum á markaði hvort sem litið er til þróunarinnar á skuldabréfamarkaði eða könnunum á væntingum fyrirtækja, heimila og markaðsaðila. Ljóst er að samningur sem myndi fela í sér svo mikla aukningu á ríkisútgjöldum myndi leiða til hærri verðbólguvæntinga og þrengja þar með að svigrúmi Seðlabankans til vaxtalækkana.

Þessi nýi tónn sem hefur verið sleginn af verkalýðsforystunni er vissulega jákvæður og gefur væntingar um uppbyggilegar kjaraviðræður. Reynist hins vegar staðreynd málsins að hann hafi verið sleginn í skjóli áforma um að ná fram umbyltingu á stórum hluta velferðarkerfisins þá er tóninn falskur og holur.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 5. janúar 2024.