Íslenskur vinnumarkaður er sterkur. Ein birtingarmynd þess er mikil atvinnuþátttaka sem á sinn þátt í að skapa þau góðu lífskjör sem við búum við í dag, mikil atvinnuþátttaka stuðlar að auknum hagvexti og bættri framleiðni, auk þess sem hún dregur úr álagi á velferðarkerfi.

Sterkur vinnumarkaður byggir á trausti á milli aðila vinnumarkaðarins. Þeir hafa leitt þróun réttinda á vinnumarkaði og gætt hagsmuna launafólks sem misst hefur starfsgetu. Þegar við stofnun almennu lífeyrissjóðanna árið 1969 var gert ráð fyrir örorkulífeyri umfram lágmarksgreiðslur ríkisins og stofnun Virk starfsendurhæfingarsjóðs árið 2008 var mikilvægt skref til að auka þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að þróa áfram samspil veikindaréttar, starfsendurhæfingar og greiðslna lífeyrissjóða og almannatrygginga svo áfram verði hagfelldara að vera á vinnumarkaði en utan hans.

Það á að borga sig að vinna

Þann 1. september næstkomandi breytast réttindi fólks með skerta starfsgetu, breytingin er ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á örorkulífeyri. Markmið breytinganna er að draga úr örorku, auka virkni og þátttöku á vinnumarkaði – um þau markmið var mikil samstaða.

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að innleiða þessar miklu og dýru breytingar án þess að ljúka fjármögnun þeirra, það á eftir að ganga frá samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða, samspili breytts kerfis við vinnumarkaðinn.

Líkt og sjá má af töflunni hér að neðan verða réttindi mismunandi starfsstétta til þess að fá örorku bætta hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum aukin verulega. Taflan sýnir hver eru réttindi mismunandi starfsstétta til þess að fá örorku bætta hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, miðað við miðgildi tekna árið 2024 í samanburði við hver þau verða frá 1. september.

Réttindi í dag Réttindi þann 1. september 2025
Starfsstéttir Hlutfall fyrri tekna * Hlutfall fyrri tekna *
Verslunarmenn 73% 92%
Verkafólk 84% 100%
Iðnaðarmenn 70% 89%
*M.v. miðgildi tekna viðkomandi starfsstétta 2024

Hálfklárað ófjármagnað verkefni

Fjölgun einstaklinga með skerta starfsgetu í samfélaginu er áhyggjuefni, samkvæmt fjármálaáætlun er stærsti útgjaldaliður ríkisins fjárframlög en um 85% fjárframlaga eru almannatryggingar, árið 2000 voru fjárframlög alls 26% heildargjalda ríkissjóðs en á þessu ári eru þau áætluð 35% og árið 2030 verða þau 38%. Þegar horft er til fjölda örorkulífeyrisþega, þ.e. þeirra sem eru með minna en 25% starfsgetu þá má sjá að þeim hefur fjölgað ríflega tvöfalt á við fjölda starfandi á vinnumarkaði frá síðustu aldamótum.

Mikilvægi þess að horft sé heildstætt á samspil vinnumarkaðar, almannatrygginga og lífeyrissjóða við breytingar á kerfi örorku og endurhæfingar er augljóst öllum þeim sem láta sig varða raunverulega velferð fólks á vinnumarkaði, sjálfbærni ríkisfjármála og samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Til þess að fjármagna þessar miklu réttindabreytingar, þetta hálfkláraða verkefni, hafa stjórnvöld ákveðið að grípa með freklegum hætti inn í gerða kjarasamninga með því að afnema jöfnunarframlag sem rennur til lífeyrissjóða vegna mismunandi örorkubyrði þeirra.

Samkvæmt fjármálaáætlun mun ríkið ekki skila jöfnunarframlaginu sem innheimt er með tryggingagjaldi til lífeyrissjóðanna. Fyrirtæki landsins greiða tryggingagjaldið sem stendur undir jöfnunarframlaginu. Það stendur því til að láta íslensk fyrirtæki og ellilífeyrisþega borga fyrir hálfklárað verkefni.

Það segir sig sjálft að við þau áform verður ekki unað, ef það verður niðurstaðan þá verður ekki hjá því komist að endurskoða fyrirkomulag örorkulífeyris almennu lífeyrissjóðanna til að vernda hagsmuni annarra sjóðsfélaga.

Nú þarf klára verkefnið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.