Hafi verið einhverjar vonir um að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur yrði frjálslynd miðjustjórn sem myndi stuðla að verðmætasköpun, áframhaldandi lífskjarasókn og ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum, brustu þær á nýloknu vorþingi.

Öll áherslumál ríkisstjórnarinnar snúa að hækkun skatta á fólk og fyrirtæki, draga úr verðmætasköpun og gera ríkisútgjöld ósjálfbær með öllu. Á sama tíma einkennist allt fas ráðherra ríkisstjórnarinnar af sjálfbirgingslegu tali um hina miklu og ábyrgu verkstjórn sem nú situr við völd. Verkstjórn án verkvits.

Ágætt dæmi um þetta er þegar Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, var gestur í spjallþættinum Sprengisandi á Bylgjunni ásamt Jóni Ólafi Halldórssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins. Þar réttlætti hann meðal annars að skattbyrði hér á landi væri sú hæsta meðal ríkja OECD – samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins – með því að vísa í nauðsyn þess að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs. Það átti að gerast árið 2027, samkvæmt þeirri fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram.

Nokkrum vikum síðar hurfu þau áform í meðförum Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns fjárlaganefndar, en breytingartillaga meirihluta nefndarinnar felur í sér aukinn hallarekstur árið 2026 og áframhaldandi halla árið eftir – þvert á hin upphaflegu markmið.

Í kosningabaráttunni lofaði Kristrún forsætisráðherra að „negla niður vextina með stóru sleggjunni“. Þess í stað er ríkisstjórn hennar að keyra upp verðbólguvæntingar með fyrirsjáanlegum hallarekstri.

Lögfesting margra af þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram mun einnig ýta undir slíkar væntingar. Má þar nefna frumvarp um vísitölutengingu bótagreiðslna, sem felur í sér sjálfvirknivæðingu útgjalda ríkissjóðs og grefur þannig undan sjálfbærni opinberra fjármála. Í áliti fjármálaráðs um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eru þessi áform gagnrýnd harðlega. Þar segir að breytingin feli í sér grundvallarskref í átt að nýrri fjármögnun opinberra útgjalda, með verulegum áhrifum á sjálfbærni fjármálanna.

Frumvarp um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga var í reynd dulbúin skattahækkun. Þar var kveðið á um að þau sveitarfélög sem innheimta ekki hámarksútsvar fengju skertar greiðslur úr Jöfnunarsjóðnum. Blessunarlega tókst Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum að afstýra þeirri vitleysu í þinglokasamningi.

Frumvarp fjármálaráðherra um víxlverkun örorkulífeyrissjóðsgreiðslna felur í sér atlögu að ellilífeyrisþegum. Greiningar sýna að ellilífeyrisgreiðslur einstakra lífeyrissjóða gætu lækkað um allt að 5% til 7,5% ef frumvarpið verður samþykkt. Daði Már hefur að vísu lofað lífeyrissjóðunum að þeim verði þetta bætt upp. Það verður þó ekki gert nema með frekari ríkisútgjöldum, sem væntanlega verða fjármögnuð með enn frekari skattahækkunum. Það kæmi ekki á óvart ef ríkisstjórnin myndi horfa til tryggingagjaldsins í þeim efnum.

Við þetta bætist svo aðför ríkisstjórnarinnar að verðmætasköpun í sjávarútvegi. Lögð hafa verið fram tvö frumvörp sem eru til höfuðs sjávarútveginum. Það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að færa sífellt stærri hlut bolfiskveiða til smábáta, til þess að minni verðmæti fást fyrir aflann. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur atvinnuvegaráðherra ákveðið að ráðast gegn aflareglu Hafrannsóknastofnunar og þar með grundvelli sjálfbærni veiða í þeirri vegferð.

Veiðigjaldafrumvarpið, sem kjarnorkuákvæði var beitt á til að þröngva í gegnum þingið, rekur upp samþættingu veiða og vinnslu, sem hefur til þessa verið sérstaða íslensks sjávarútvegs og grundvöllur þeirrar miklu verðmætasköpunar sem hann hefur skilað þjóðarbúinu. Þetta mun ekki skila ríkissjóði auknum skatttekjum – enda leiðir þetta til minni verðmætasköpunar.

Það mun ekki blása byrlega fyrir íslenskan efnahag ef þessir vindar leika um land og þjóð það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.