Ritröð Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar, um sögu innri átaka innan verkalýðshreyfingarinnar og birst hefur í Kjarnanum að undanförnu nálgast nú að vera jafn efnismikil og greinasafn Envers Hoxha sem hrafnarnir hafa í hillu sem sérstakt stofustáss.

Greinarnar eru fyrir margra sakir fróðlegar. Þannig lásu hrafnarnir í einni greininni að verðlaunablaðamaðurinn Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og sennilega sá maður Íslands sem er hvað óháðastur hagsmunaöflum, hefði verið kallaður til sérstaklega af trúnaðarráði Eflingar til að útskýra fyrir ráðsmönnum hvernig efnahagsaðgerðir stjórnvalda við upphaf heimsfaraldursins skiluðu sér „ríkulega til bæði auðvaldsstéttarinnar og eignamikillar millistéttar“ eins og Sólveig kýs að orða það. Rétt er að taka fram að blaðamenn Viðskiptablaðsins hafa ekki enn verið kallaðir til fyrirlestrahalds á vegum hagsmunasamtaka á borð við Samtaka atvinnulífsins eða Borðtennisfélags Reykjavíkur og myndu seint þiggja slík boð.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. ágúst 2022.