Enn er allt í háalofti á Alþingi og stjórnarliðar gera sig líklega til þess að þrýsta kjarnorkuhnappinn svokallaða og beita 71. grein þingskaparlaga til þess að binda enda á umræður um veiðigjöld og jafnvel fleiri mál og knýja fram atkvæðagreiðslu.

Þó svo að þingleg meðferð á veiðigjaldafrumvarpi ­Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráð­herra hafi sýnt svo ekki verður um villst að það er ekki án galla og styðst við vafasama útreikn­inga virðist það orðið sjálfstætt markmið ríkis­stjórnarinnar að sýna að hún ræður för og að meirihlutinn þurfi ekkert tillit að taka til minnihlutans, hvað sem þing­sköp eða stjórnarskrá ­kunna að hafa að ­segja. Það skiptir engu máli að fórnar­kostnaðurinn sé alvarleg atlaga að verðmætasköpun í landinu og þingræðinu í þokkabót.

Í ­þessu samhengi má nefna að hrafnarnir sáu grein eftir Þórð Snæ Júlíusson, fram­kvæmda­stjóra þingflokks Sam­fylkingar­innar, sem sagður er arkitektinn að sjávarútvegsstefnu ríkis­stjórnarinnar, á Vísi í vikunni. Þar segir: „Ný ríkisstjórn vildi reikna rentu sína af auðlind í sinni eigu út á annan hátt en gert hefur verið og öll líkindi stóðu til þess að það myndi skila ríkissjóði auknum tekjum.“ Það vekur at­hygli hrafnanna að þar skrifar Þórður í þátíð. Er það til marks um að stjórnarliðar hafi gert sér grein fyrir að frumvarpið muni leiða til lægri skatt­heimtu þegar allt er yfir staðið en samt verði að fara fulla ferð áfram?

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.