Líkt og við var að búast var hver silkihúfan upp af annarri í leiðtogaumræðum sem Ríkisútvarpið bauð upp á síðastliðið föstudagskvöld. Þar var formanni Samfylkingarinnar tíðrætt um plön flokksins sem fælu það meðal annars í sér að skattar yrðu ekki hækkaðir á vinnandi fólk. Þessi orð stungu töluvert í stúf því Kristrún hafði staðið einstaklega alþýðleg fyrir framan Bónus á Egilsstöðum stuttu áður og kynnt áform flokksins um að gera nákvæmlega það – að hækka skatta á vinnandi fólk

Það er því óhætt að draga þá ályktun að smiðir, hárgreiðslufólk, pípulagningamenn og lögfræðingar teljist ekki lengur með í hópi hinna vinnandi stétta. Það er nefnilega fólkið sem mun greiða hærri skatta þegar Samfylkingin hrindir úr vör áformum sínum um að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%. Það vakti athygli að hækkun fjármagnstekjuskatts var kynnt sem liður í bráðaaðgerðum flokksins í húsnæðismálum. Hvaða áhrif hækkun fjármagnstekjuskatts hefur á húsnæðismarkaðinn, önnur en að leiða til hærra leiguverðs, er ekki auðvelt að sjá. En það er annað mál.

Aftur á móti liggur enginn vafi á því að boðuð hækkun mun helst bitna á einyrkjum sem hafa stofnað rekstur utan um sérfræðiþekkingu sína. Herferð flokksins um að loka „EHF-gatinu“ svokallaða beinist því fyrst og fremst að fólki með iðnmenntun og öðrum með sérfræðikunnáttu sem stofnað hafa lítinn rekstur í kringum hana. Herferðin byggir á miklum misskilningi og innistæðulausum staðhæfingum um að þeir sem eigi rekstur geti alfarið sniðgengið tekjuskatt og greitt aðeins fjármagnstekjuskatt. Reglur skattsins um reiknað endurgjald eru skýrar og koma í veg fyrir einmitt þetta. Sérfræðingur sem er með einn eða tvo starfsmenn í vinnu þarf að greiða sér tæpa eina og hálfa milljón í laun á mánuði. Þegar starfsmennirnir eru orðnir á bilinu 6 til 15 eru viðmiðin fyrir launagreiðslur eiganda á bilinu 1,7 til 2,1 milljón á mánuði. Standi reksturinn svo undir arðgreiðslu er greiddur af henni fyrirtækjaskattur og fjármagnstekjuskattur.

Eins og Jón Elvar Guðmundsson, lögmaður og einn eigenda Logos, bendir á í aðsendri grein í þessu blaði þá eru skatthlutföllin, eins þau eru stillt af í dag, þannig að einstaklingur sem fær eina milljón í mánaðarlaun greiðir mun lægra hlutfall þeirrar upphæðar í skatt en sá sem aflar sömu fjárhæðar í gegnum rekstur hlutafélags. Hið svokallaða „EHF-gat“ er því ekkert annað en hugarburður frambjóðenda Samfylkingarinnar.

Ekki nóg með að þessar tillögur Samfylkingarinnar leysi ímyndað vandamál heldur grafa þær einnig undan mikilvægri stoð í íslensku efnahagslífi: rekstri smáfyrirtækja. Sé miðað við tölur sem Samtök atvinnulífsins kynntu fyrir nokkrum árum má gera ráð fyrir að í kringum 50 þúsund manns þiggi laun frá smáfyrirtækjum sem eru með færri en tíu starfsmenn. Launagreiðslur slíkra fyrirtækja nema meira en 200 milljörðum króna á ári hverju.

Það eru eigendur slíkra fyrirtækja og eldra fólk, sem hefur náð að byggja upp sparnað á langri starfsævi, sem er skotspónn Samfylkingarinnar í þessum efnum. Varanleg hækkun fjármagnstekjuskatts bitnar fyrst og fremst á þessum hópum og þá sérstaklega sparifjáreigendum í ljósi þess að skatturinn greiðist af nafnávöxtun, ekki raunávöxtun.

Frambjóðendur Samfylkingarinnar segja enn fremur að hækkun fjármagnstekjuskatts sé ætlað „að taka á þenslunni þar sem hún er“ hvað svo sem það þýðir. Flokkurinn telur það því sérstakt áhyggjuefni að sparnaður almennings hafi „þanist út“. Sparnaður er grundvöllur fjárfestingar í hagkerfinu. Fjármagnstekjuskattur er nú þegar hár á Íslandi og hefur skatthlutfallið margfaldast undanfarinn einn og hálfan áratug. Tillögur Samfylkingarinnar um hækkun fjármagnstekjuskatts endurspegla fyrst og fremst afstöðu flokksins til eigenda smárra fyrirtækja og eldra fólks sem hefur náð að leggja einhvern sparnað til hliðar yfir ævina. Það liggur fyrir að þessar auknu skatttekjur munu hafa litla þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs og endurspegla fyrst og fremst þá staðreynd að stefnusmiðir flokksins hafa horn í síðu eigenda smárra fyrirtækja og sparifjáreigenda.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 6. nóvember 2024.