Hreinskiptni er til eftirbreytni. Því var það til fyrirmyndar þegar Guðmundur Ari Sigurjónsson, annar maður á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, tók af öll tvímæli og sagði flokkinn ætla að hækka skatta komist hann til valda.

Þessi orð lét hann falla í þættinum Spursmál sem er sýndur á vefsvæði Morgunblaðsins. Nefndi hann tekjuskatt á einstaklinga og allra handa auðlindagjöld í þessu samhengi.

Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, tilkynnti um framboð sitt um helgina með sínum beinskeytta og hnitmiðaða hætti. Hann lýsti erindi sínu í stjórnmálin á látlausan máta. Í nítján ár hefur hann „sérhæft sig í að greina samfélagið, stjórnmálin, efnahagsmál, atvinnulífið. Meira og minna öll svið tilverunnar. Og hef fyrir vikið komið upp mikilli getu til að setja mig inn í mál, skilja áskoranir og koma auga á lausnir.“ Lausnin sem hann hefur komið auga á er eftirfarandi: „Hækka álögur á breiðu bökin sem greiða allt of lítið til samneyslunnar.“

Staðreynd málsins er aftur á móti að það er fyrst og fremst millistéttin hér á landi og þeir sem hafa enn hærri tekjur en gengur og gerist sem greiða þann tekjuskatt sem rennur í ríkissjóð. Launþegar sem hafa lægri tekjur greiða nánast enga skatta sem renna í ríkissjóð en opinber gjöld þeirra renna fyrst og fremst til sveitarfélaga.

Tekjuskattur hér á landi er langt í frá að vera lágur. Hlutfallið er með því hæsta sem þekkist í þróuðum löndum Vilji frambjóðendur Samfylkingarinnar ganga enn lengra í þeim efnum þá eiga þeir að segja það eins og Guðmundur Ari í raun og veru gerir. Þá er rétt að halda því til haga að leiðtogar flokksins eru frekar að horfa til Bretlands undir stjórn Verkalýðsflokksins á áttunda áratug 20. aldar en ekki þess tíunda. Það eru breiðu bökin sem eru Þórði svo hugleikin sem greiða tekjuskattinn og það er sá skattstofn ásamt virðisaukaskatti sem skiptir mestu fyrir rekstur ríkissjóðs.

Að sama skapi virðist sú hugsunarvilla vera ríkjandi meðal stjórnmálamanna að skattur á fjármagnstekjur sé eitthvað sérstaklega lágur hér á landi. Það er þvættingur sem má meðal annars rekja til viðvarandi misskilnings Stefáns Ólafssonar, félagsfræðings Eflingar og pólitísks fylgihnattar Samfylkingarinnar, á hvernig fjármagnstekjur eru skattlagðar. Ef einstaklingur leggur til hlutafé til fyrirtækis þá er greiddur skattur af sjálfum rekstrinum og svo aftur af arðgreiðslunni ef allt gengur að óskum. Samanlagt er þá hlutfallið kringum 40%. Einfalt dæmi sýnir það: Ef við tökum tekjur af hlutafé. Fyrir hverjar hundrað krónur – í nettó tekjur eru greiddar tuttugu krónur í skatt. Þá eru eftir áttatíu sem greitt er út í arð, af þeim eru greiddar 17,6 í skatt og þá samtals 37,6 en ekki 22 eins og oft er haldið fram.

Að sama skapi virðast margir stjórnmálamenn ímynda sér að hægt sé að innheimta nánast óþrjótandi tekjur í ríkissjóð í formi einhvers konar auðlindar- og umhverfisgjalda. Eru orkugeirinn, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan oftast nefnd í þessu samhengi. Þeir sem tala fyrir þessu verða að gera sér grein fyrir að hvort tveggja orkugeirinn og sjávarútvegurinn er nú þegar skattlagður upp í rjáfur. Auk þessa er orkugeirinn meira og minna í eigu hins opinbera þannig að heildaráhrif aukinnar skattheimtu eru hverfandi.

Staðreynd málsins er sú að skattar eru nú þegar mjög háir á Íslandi og gildir einu hvort um sé að ræða skatta á tekjur, fjármagn eða á fyrirtækjarekstur. Mönnum er frjálst að telja að það sé rétt að ganga enn lengra í þessum efnum eins og Samfylkingin virðist í raun og veru vilja gera en þá verður að gera kröfu um að talað sé hreint út og útskýrt hvaða neikvæðu afleiðingar slík ofurskattastefna hefur.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 30 október 2024.