Netöryggismál á fjármálamarkaði skipta sköpum og mikilvægt að þeir sem stjórna fjármálafyrirtækjum taki þessum málum föstum tökum.

Hrafnarnir telja að enginn hér á landi taki málaflokkinn fastari tökum en Ásgeir Jónsson og hans fólk í Seðlabankanum. Í síðustu viku stóð finnski seðlabankinn fyrir dagslöngum fundi um netógnir og forvarnir gegn þeim. Sumir íslensku bankarnir sendu einn til tvo fulltrúa til fundarins og það sama á við um þá lífeyrissjóði sem tóku þátt. Hrafnarnir heyra hins vegar að Seðlabankinn hafi sent að minnsta kosti þrettán starfsmenn sína til Finnlands og hefðu þeir varla mátt vera færri.

Það sama er ekki uppi á teningnum þegar kemur að aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bakú í Aserbaísjan síðar í mánuðinum. Seðlabankinn sendir eingöngu Tinnu Hallgrímsdóttur loftlagsleiðtoga bankans á þingið. Hrafnarnir hafa þó ekki áhyggjur af því að hún verði einmana því að íslenska sendinefndin telur 46 manns og eru það mestallt fulltrúar hins opinbera og fyrirtækja í opinberri eigu.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. nóvember 2024.