Það kemur hröfnunum á óvart að enginn skuli hafa spurt Stefán Eiríksson útvarps-stjóra hvort það sé sérstakur ósigur fyrir íslensku þjóðina og blaðamennsku að Helgi Seljan skuli nú vera hættur störfum sem blaðamaður.

Samanber fræg ummæli hans sem látin voru falla þegar Helgi hætti á RÚV og varð rannsóknarritstjóri Stundarinnar. Væntanlega er það vegna anna. Sem kunnugt er endurréð stjórn RÚV Stefán á dögunum sem útvarpsstjóra til næstu fimm ára án þess að auglýsa starfið. Skal engan undra.

Rekstur RÚV undir handleiðslu Stefáns hefur verið samfelld sigurganga. Þannig tapaði RÚV einungis hálfum milljarði fyrstu sjö mánuði ársins. Var tapreksturinn meðal annars rakinn til kostnaðar vegna umfjöllunar um forsetakosningarnar í sumar sem komu stjórnendum RÚV í opna skjöldu og enginn gerði ráð fyrir. Hugur hrafnanna er nú hjá stjórnendum stofnunarinnar sem eru væntanlega forviða vegna alþingiskosninganna sem fram undan eru.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 23. október 2024.