Það er með ólíkindum að sitja við tölvu og rita þennan pistil í 20 stiga hita í Reykjavík. Á svona dögum er enginn staður í heimi betri en Ísland. Að sama skapi er fátt jafn ömurlegt og sumardagur í 4 gráðum og rigningu sem skýrir linnulausar ferðir Íslendinga suður á bóginn.

Þingmenn eru loksins komnir í sumarfrí, rétt eins og grunnskólabörnin. Það er ánægjulegt. Þetta var auðvitað búið að liggja þungt á okkur venjulega fólkinu að þeir kæmust ekki í frí sökum málþófs. Lokametrar þingsins voru svo leiðinlegir að bæði almenningur og þeir sjálfir voru komnir með hundleið á öllu saman.

Að fylgjast með hvernig umræðan kristallast í málinu er í meira lagi áhugavert. Þau tvö sjónarmið sem kallast á eru annars vegar að þeir sem eru í prinsippinu á móti skattahækkunum hafi gjörsamlega misst salinn. Þetta er mælanleg stærð og hárrétt. Þorri landsmanna sér fyrir sér meiri fjármuni í kassann sem sé hægt að eyða í hitt og þetta misgagnlegt. Hitt sjónarmiðið er að ekki sé hægt að vera þeirrar skoðunar að enn ein hækkunin á sértækum sköttum sé vond hugmynd fyrir samfélagið. Að allir sem eru á þeirri skoðun séu handbendi útgerðarinnar og séu á milli steins og sleggju, á milli almennings og sérhagsmunaafla.

Sennilega væri farsælla ef hægt væri að ræða grundvallarhagsmunamál samfélagsins á málefnalegum nótum. Það virðist ekki nægja til að forsætis- og fjármálaráðherra séu hagfræðingar, pólitíkin verður fræðunum yfirsterkari.

Að því sögðu mæli ég með því að slökkva á fréttunum, skella Temu sólgleraugum á nefið eins og Inga Sæland, græja drykk og halda út í sólina. Sirkusinn opnar aftur með haustinu og við erum öll strax komin með leið á honum.

Höfundur er hugbúnarverkfræðingur.