Íslendingar hafa alla tíð dregið fram lífið með því að nýta auðlindir sínar, ekki síst í sjónum. Hvalir hafa verið veiddir hér við land frá 17. öld þegar Baskar gerðu út frá Vestfjörðum. En sumir eru á móti hvalveiðum.

Það er ekkert nýtt. Stundum hefur verið talað um að dýrin séu í útrýmingarhættu og veiðarnar séu ekki sjálfbærar. Það er rangt.

Langreyður er ekki í útrýmingarhættu. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum Hafrannsóknastofnunar er mikið af langreyði við Ísland og reyndar ekki fleiri síðan mælingar hófust fyrir 35 árum. Það aflamark sem mælt er með af hálfu Hafrannsóknastofnunar er samkvæmt ströngustu skilyrðum um sjálfbærar hvalveiðar, eins og þær eru skilgreindar og metnar hjá Alþjóða hvalveiðiráðinu. Veiðarnar eru því ótvírætt í samræmi við meginregluna um sjálfbærni.

Við megum ekki gleyma því að allar veiðar eru áhætta.

Tilgangur nánast allra veiða, að laxveiðum undanskildum, er að sækja fæðu sem ætluð er til matar. Þessi vara er svo seld og skapar Íslendingum í senn drjúgar útflutningstekjur og mörg störf á vertíðinni.

En enn heyrast raddir um að rétt sé að banna hvalveiðar. Núna vegna þess að samkvæmt rannsókn Matvælastofnunar tekst ekki alltaf að drepa hvalinn í fyrsta skoti.

Við megum ekki gleyma því að allar veiðar eru áhætta. Markmið þeirra er þó alltaf að fella dýr. Það er því miður ekki alltaf auðvelt að veiða villt dýr. Ég hef ekki trú á öðru en að þessi niðurstaða þrýsti á, að allra leiða verði leitað til að tryggja að dauðastríð dýranna verði sem styst.

En ef við myndum bara stunda veiðar þar sem við gætum tryggt að dýr dræpust strax, þá væri sennilega ljóst að fólk yrði að finna sér eitthvað annað í jólamatinn en hreindýr, gæsir og rjúpur, að ógleymdum villta, grafna laxinum.