Hvernig stendur á því að aðstæður eru svona krefjandi á íslenskum orkumarkaði núna? Þótt utanaðkomandi áhrif séu mikil, þá getum við fyrst og fremst kennt okkur sjálfum um. Þegar Covid-faraldurinn gekk yfir dró úr eftirspurn eftir raforku og framboð var meira en hægt var að selja.
Eftir innrás Rússa í Úkraínu snerist dæmið við og raforkuverð í Evrópu fór í hæstu hæðir. Þá snarjókst eftirspurnin hérlendis, stórnotendur fullnýttu sína samninga og vildu bæta við á sama tíma og ný fyrirtæki vildu gjarnan komast að.
Því hamra ég enn og aftur á sömu ráðum, eins og Kató gamli: Það verður að grípa til aðgerða til að tryggja orkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja. Það verður líka að útvega orku til að mæta orkuskiptum á landi og sjó. Og við verðum að vera í stakk búin til að selja raforku til vænlegra fyrirtækja, jafnt nýrra sem þegar starfandi. Þetta er lykillinn að farsælli þróun samfélagsins.
Erfitt að komast af stað
Landsvirkjun er búin að reyna að komast af stað með ný verkefni árum saman en stjórnvöld hafa ekki heimilað byggingar nýrra virkjana eftir 2020 eins og augljós þörf var á. Við óskuðum t.d. eftir virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í júní 2021 með það að markmiði að hefja framkvæmdir 2022 og taka virkjunina í rekstur 2026. Ef það hefði gengið eftir væru horfur til næstu ára í raun ágætar. Tæpum þremur árum síðar er það enn ekki komið.
Aðrir virkjanakostir eru sama marki brenndir, enda kerfi leyfisveitinga afar seinvirkt. Það tekur sannarlega ekki mið af mikilvægi raforku sem súrefni samfélagsins, framlagi grænu orkuvinnslunnar okkar til loftslagsskuldbindinga og stefnu stjórnvalda um orkuskipti.
„Stjórnvöld verða því að axla ábyrgð og tryggja að leyfisveitingarferli virki betur en hingað til.“
Því fer fjarri að við hjá Landsvirkjun séum að mælast til einhverrar hraðafgreiðslu á virkjanakostum, þar sem kastað yrði til höndunum. Áður en sjálf umsóknin um virkjunarleyfi er lögð fram hefur umfangsmikil rannsóknar- og undirbúningsvinna staðið árum saman, þ.e. rannsóknir á orkuauðlindinni sjálfri, verkhönnun til að staðfesta hagkvæmni virkjunar, umhverfismat og víðtækt samráð við fjölda hagsmunaaðila.
Þegar aðstæður breyttust á orkumörkuðum árið 2020 var Landsvirkjun vel undirbúin og gat með stuttum fyrirvara óskað virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun og síðan fyrir Búrfellslund þegar hann var settur í orkunýtingarflokk árið 2022. Allri tímafreku undirbúningsvinnunni var lokið. Hvorugt leyfið hefur þó fengist enn eins og áður er nefnt.
Mest aukning hjá Landsvirkjun
Á undanförnum áratug hefur orkuframleiðsla á Íslandi aukist um 360 MW. Hlutur Landsvirkjunar í þeirri aukningu er yfir 80%, eða 285 MW. Við bættum við Búðarhálsvirkjun (95 MW), Þeistareykjavirkjun (90 MW) og Búrfelli II (100 MW). Önnur aukning varð hjá HS-Orku (40 MW) og um 20 smávirkjanir lögðu samtals af mörkum um 35 MW. Ánægjulegt er að sjá hvað smávirkjunum hefur fjölgað en þær framleiða nú um 5% af raforku landsins.
Á árunum 2014-2018 tókum við þannig í rekstur þrjár nýjar virkjanir, samhliða því að vinna að umfangsmiklum undirbúningi allra þeirra virkjanakosta sem við höfum fengið samþykkta í nýtingarflokk rammaáætlunar. Fram til 2022 var því ágætis jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar, einkum vegna aukins framboðs Landsvirkjunar af raforku.
6 kostir í nýtingarflokki
Sextán virkjanakostir eru nú í nýtingarflokki rammaáætlunar. Af þeim á Landsvirkjun sex, HS Orka fimm, ON þrjá og Sæmörk/Arctic Hydro og Vesturverk/HS Orka einn hvort. Sjö af þessum sextán kostum hafa farið í gegnum umhverfismat og þar á Landsvirkjun fimm. Aðeins á eftir að ljúka umhverfismati fyrir Blöndulund af þeim kostum sem við eigum í nýtingarflokki en hann færðist í þann flokk 2022. Nú er þess beðið að sveitarfélagið setji hann inn á aðalskipulag.
Tveir kostir Landsvirkjunar, Blöndulundur og Blönduveita, eru á svæði þar sem ekki er hægt að flytja raforkuna burtu fyrr en Landsnet hefur lagt nýjar flutningslínur, en mikil óvissa ríkir um hvenær af því verður. Sú óvissa hefur að sjálfsögðu áhrif á fyrirætlanir Landsvirkjunar um uppbyggingu þeirra kosta.
Ný orkumannvirki
Til að mæta aukinni raforkuþörf stefnum við hjá Landsvirkjun á fjögur virkjunarverkefni á næstu 4-5 árum; vindorkuverið Búrfellslund, vatnsaflsvirkjunina Hvammsvirkjun, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og stækkun Sigöldustöðvar, samtals 335 MW. Að baki þeirri öflugu uppbyggingu er að sjálfsögðu ítarlegt og yfirgripsmikið undirbúningsstarf Landsvirkjunar á liðnum árum. Fyrirtækið hefur samtals lagt meira en 30 milljarða króna í þann undirbúning og aðra 25 milljarða síðasta áratug í endurbótaverkefni sem hafa skilað betri nýtingu á þeim aflstöðvum sem fyrir eru.
Okkur er því miður ekki kunnugt um að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist auka við framboð sitt á næstu fimm árum, ef undan er skilin stækkun Svartsengisvirkjunar HS Orku um 20 MW og svo má vonandi gera ráð fyrir frekari uppbyggingu smávirkjana.
Stjórnvöld axli ábyrgð
Stjórnvöld verða því að axla ábyrgð og tryggja að leyfisveitingarferli virki betur en hingað til. Þar má sérstaklega nefna nauðsyn þess að stofnunum verði tryggt nægjanlegt fjármagn og þeim settir ákveðnir tímafrestir og að gengið verði eftir að þeir séu virtir.
Það er líka nauðsynlegt að endurskoða lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) og tryggja að nægir virkjanakostir séu í nýtingarflokki til að minnsta kosti næstu 10 ára. Taka þarf tillit til þess mikla undirbúnings sem þarf að ráðast í eftir að virkjunarkostur hefur verið færður í nýtingarflokk og að mögulega verði ekki hægt að nýta þann kost, t.d. vegna einhverra eiginleika orkuauðlindar sem koma í ljós við ítarlegar rannsóknir.
Það verður að draga úr áhættu fyrirtækja í leyfisveitingaferli og auðvelda þannig öðrum en Landsvirkjun að taka þátt í aukinni orkuöflun. Það er væntanlega ekki tilviljun að önnur orkufyrirtæki, sem ekki hafa jafn djúpa vasa, séu ekki með neinar framkvæmdir á teikniborðinu. Það er erfitt að réttlæta að leggja í milljarða króna kostnað við 10-15 ára undirbúning virkjunar þegar það er hægt að slá virkjanakosti í nýtingarflokki út af borðinu nær alveg fram að upphafi framkvæmda.
Þegar Alþingi er búið að heimila að taka landsvæði undir orkuvinnslu verður einfaldlega að liggja fyrir mjög fljótlega hvort sú heimild haldi eða ekki. Kæruleiðir verða því að vera snemma í leyfisveitingaferlinu og það verður eins og fyrr segir að vera innan eðlilegra tímamarka.
Umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra hefur hrundið af stað margs konar vinnu til að ráða bót á ofangreindu og styðjum við hann heilshugar í þeirri vegferð. Það er von okkar að ný ríkisstjórn beri gæfu til þess að fylgja þeim málum eftir.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun.