Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er augljóslega farin að undirbúa jarðveginn fyrir skattahækkanir. Í síðustu viku lét hún þau orð falla að staða ríkisfjármála væri hugsanlega verri en ráðamenn ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir.

Þetta er í besta falli fyrirsláttur. Staða ríkisfjármála er öllum kunn og það blasti við öllum  að skatttekjur ríkissjóðs myndu lækka samhliða minni slagkrafti í hagkerfinu. Óvissan í tengslum við Reykjaneselda og þau mál öll var öllum kunn.

Ríkissjóður á ekki við tekjuöflunarvanda að stríða. En hann á við útgjaldavanda að stríða. Það er enginn lausn á þeim vanda að auka skattheimtu á fólk og fyrirtæki.

Það eru viðsjárverðir tímar fram undan og ljóst að íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur á undraskömmum tíma tekist að grafa undan því skipulagi alþjóðaviðskipta sem stjórnvöld í Washington D.C voru í fararbroddi að byggja upp eftir stríðsárin. Kerfi sem einkennist af frjálsræði í alþjóðaviðskiptum með vörur og þjónustu og miðar að lækkun tolla og afnámi hindrana fyrir milliríkjaviðskiptum.

Það mun skýrast í byrjun næsta mánaðar hvernig Ísland fellur milli báts og bryggju í einhliða tollastríði Bandaríkjaforseta. Því miður eru miklar líkur á því að grundvallaratvinnuvegirnir – sjávarútvegurinn og ferðaþjónusta – muni verða illa fyrir barðinu á stefnu Bandaríkjaforsenda í þessum efnum.

Í síðustu viku fór fram árleg sjávarútvegssýning í Boston sem hefur alla tíð verið vel sótt af fulltrúum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Á fundum við bandaríska viðskiptavini fengu íslensk fyrirtæki þau skilaboð að þau ættu að gera ráð fyrir hinu versta þegar kemur að útfærslu ofurtolla bandarískra stjórnvalda.

Vonandi rætast þær spár ekki en það er umhugsunarefni hversu lítið heyrist frá utanríkisþjónustunni um þessi mál öll. Hvað er verið að gera til að huga að hagsmunum íslenskra utanríkisviðskipta í þessum efnum?

Tollabrölt Trumps hefur jafnframt stuðlað að veikingu Bandaríkjadals að undanförnu. Töfluhagfræðin segir að tollar séu frekar líklegri til þess að styrkja gengi gjaldmiðils til skemmri tíma en það hefur ekki verið raunin. Ástæðan er fyrst og fremst sú að stærstu eigendur bandarískra
ríkisskuldabréfa í Evrópu og Asíu hafa brugðist við með að selja þær eignir. Þetta hefur áhrif á ferðamannaiðnaðinn hér á landi.

Allt þetta beinir sjónunum að yfirlýstri stefnu núverandi ríkisstjórnar. Boðað hefur verið að leggja á sértæka skatta á ferðaþjónustuna og hækka auðlindagjöld á sjávarútveginn. Auk þess hefur meirihlutinn á Alþingi óskað  eftir að matvælaráðherra rannsaki sérstaklega tilgátur um að arður sem myndast í sjávarútvegi hafi verið varinn til þess að fjárfesta í uppbyggingu í öðrum atvinnugreinum. Eins og það sé vandamál sem kalli á inngrip ríkisvaldsins.

Hvorki sjávarútvegurinn né ferðaþjónustan þarfnast aukinnar skattheimtu á þessum óvissutímum sem nú eru uppi. Þvert á móti er mikilvægt að stjórnvöld hlúi að grundvallaratvinnugreinum og verðmætasköpun. Óvissan fram undan er mikil og ráðamenn verða að gera sér grein fyrir því að á slíkum tímum er ekki rétt að skattpína gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 26. mars 2025.