Í Morgunblaðinu á mánudag var fjallað um áform bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að leggja sérstakan skatt á verktaka sem byggja húsnæði á lóðum sveitarfélagsins. Blaðið hefur eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að gert sé ráð fyrir að skatturinn muni skila bænum 25-30 milljörðum króna á næstu tíu árum.
Kjartan segir skattinn lagðan til að standa straum af uppbyggingu í bænum þar sem fólksfjölgun hefur verið ör. Þetta er ekki trúverðug útskýring. Eðli málsins aukast útsvarstekjur bæjarfélagsins við fólksfjölgun. Við þann vöxt ætti að sníða stakkinn.
Útsvarstekjur Reykjanesbæjar hafa verið kringum fimmtán milljarðar á ári. Skattlagning sem nemur 30 milljörðum á næstu tíu árum er því veruleg aukning skattbyrðar þeirra sem búa og starfa í sveitarfélaginu. Þessi skattlagning mun ekki hafa nein önnur áhrif en að uppbygging innviða í sveitarfélaginu verður dýrari fyrir vikið.
Keflvíkingar og Njarðvíkingar eru ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Sérstakur skattur á verktaka er lagður í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík eins og fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins og væntanlega munu fleiri sveitarfélög bætast í hópinn þegar fram líða stundir.
Full ástæða er til að veita þessari þróun eftirtekt. Hún er birtingarform stjórnmálaafla sem bjóða ekki neinar aðrar lausnir en hækkun skatta. Þegar farið er yfir tillögur stjórnarandstöðuflokkanna í efnahagsmálum og vegna verðbólguvandans sést að rauði þráðurinn er skattahækkanir. Engar aðrar lausnir eru boðaðar.
Þannig er helsta hráefnið í orðasalati stjórnarandstöðunnar í umræðunni um verðbólguvandann og hlutverk ríkisins skattahækkanir. Alla jafna er horft til sjávarútvegsins og fjármagnstekna í þessum efnum. Skattspor útvegsins hleypur nú þegar á tugmilljörðum króna á ári hverju. Það er barnalegt að halda því fram að hægt sé að auka það enn frekar til að standa undir tugmilljarða útgjaldaaukningu ríkisins til viðbótar.
Fjármagnstekjur einstaklinga námu samkvæmt Hagstofunni um 240 milljörðum í fyrra. Fólk eldra en sextugt greiddi meira en helminginn af þessari upphæð í fjármagnstekjur. Stærsti hluti þessa hóps eru ellilífeyrisþegar. Er þetta sá hópur sem horft er til þegar boðaðar eru stórfelldar hækkanir á fjármagnstekjuskatti til að fjármagna frekari ríkisútgjöld.
Ekki er ríkisstjórnin mikið skárri í þessum efnum. Hækkun fasteignagjalda vegna útgjalda vegna varnargarða á Reykjanesi ætti að vera mönnum í fersku minni. Engar líkur eru á því að sá skattur verði lækkaður þegar Reykjaneseldar verða yfirstaðnir því ekkert er jafn varanlegt og tímabundin skattahækkun.
Það er mikilvægt að hafa þetta í huga nú þegar ljóst er að háir raunvextir eru farnir að hafa sín áhrif á efnahagsumsvif í hagkerfinu. Ný hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir umtalsvert lægri hagvexti á næstu árum en í þjóðhagsspá Hagstofunnar en tekið er tillit til hennar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á dögunum.
Þetta þýðir að skatttekjur ríkissjóðs verða lægri en gert er ráð fyrir og þar af leiðandi hallareksturinn meiri. Fjármálaáætlun stjórnvalda felur í sér sáralitla hagræðingu og ekkert aðhald – aðeins er mælt fyrir að auka ríkisútgjöldin með hægari hætti en áður var stefnt að.
Senn gengur í garð kosningavetur með öllum sínum yfirboðum á vettvangi stjórnmálanna. Yfirboð sem munu kosta skattgreiðendur á endanum.
Nauðsynlegt er að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Skattbyrði íslenskra heimila og atvinnulífs er mikil í evrópskum samanburði. Ekki verður mikið lengra gengið í þeim efnum án þess að það leiði til verulegs samdráttar á umsvifum í hagkerfinu.
Staða ríkissjóðs er vissulega sæmileg og skuldir hans hóflegar í samanburði við önnur vestræn ríki. En staðan getur fljótt breyst til hins verra. Það er einmitt þangað sem stjórnvöld stefna að óbreyttu á meðan þörfin á hagræðingu og aðhaldi í ríkisrekstrinum vex með degi hverjum.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 1. maí 2024.