Opnir nefndarfundir Alþingis eru oft á tíðum hið besta skemmtiefni. Hrafnarnir horfðu þannig á fund efnahags- og viðskiptanefndar um fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands á þriðjudag. Gestir fundarins voru þeir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson sem er einn af fjölmörgum varaseðlabankastjórum.

Eins og við var að búast átti sjálftökumaðurinn Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins og stjórnarformaður Neyðarsjóðs Ragnars Þórs Ingólfssonar og fjölskyldu ehf., stjörnuleik á fundinum.

Þannig gagnrýndi hann þá Ásgeir og Tómas harðlega fyrir að vera alltof uppteknir af bönkunum og fjármálakerfinu í máli sínu og ættu frekar að hafa áhyggjur af heimilunum. Ragnar telur greinilega að þeir sem bera ábyrgð á fjármálaeftirliti og fjármálastöðugleika Íslands eigi að hugsa um eitthvað allt annað í störfum sínum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. apríl 2025.