Týr rakst á ansi sérstaka grein sem birtist í Heimildinni á dögunum. Greinina skrifa þær Ásdís Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur og Vígdís Fríða Þorvaldsdóttir sem er fræðslustjóri hjá Landvernd.
Í stuttu máli fjallar greinin um hvernig einstaklingar geta misnotað skipulagslögin til að tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir sem þeim er illa við. Sem kunnugt er þá er Ásdís Hlökk fyrrverandi skipulagsstjóri ríkisins og ætti því að vera öllum hnútum kunnug þegar kemur að því að tefja framkvæmdir.
Hún hefur því alla þá þekkingu sem til þarf hjá skilvirkum aðgerðarsinna.
Í lok greinarinnar er svo áframhaldandi fræðsla boðuð af hálfu Landverndar. Tý kemur tímasetningin ekki á óvart. Hún hlýtur að hafa eitthvað með það að gera að loksins virðist þorri stjórnmálaafla á þingi hafa gert sér grein fyrir að orkuskortur er í landinu og lífskjör verða ekki tryggð nema með áframhaldandi orkuöflun.
Ásdís Hlökk fór úr stóli skipulagsstjóra yfir í stjórn Landverndar. Hjá Landvernd er einnig starfandi svokallað fagráð. Þar situr meðal annars Bjarni Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og ákafur talsmaður þess sjónarmiðs að engin þörf sé á að fjölga virkjunarkostum hér á landi.
Landvernd er nefnilega hagsmunasamtök andstæðinga virkjunarframkvæmda og orkuuppbyggingar og í samtökunum er fjöldi áhrifafólks úr íslensku samfélagi.
Í ljósi þessa er óskiljanlegt að Landvernd komist upp með að skrá sig ekki á lista stjórnvalda yfir svokallaða hagsmunaverði. Samkvæmt nýlegum lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum er hagsmunavörðum, það er einstaklingum sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni, skylt að tilkynna forsætisráðuneytinu um sig og hlutverk sitt. Þetta á svo sannarlega við um Landvernd.
Á þeim lista má til að mynda finna hagsmunasamtökin í Húsi atvinnulífsins og til þess að eyða allri óvissu um hagsmunaárekstra hefur Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, Þroskahjálp og Landssamtök skógareigenda skráð sig á lista hagsmunavarða.
Það er Tý óskiljanlegt af hverju Landvernd þarf ekki að lúta sömu lögmálum og önnur hagsmunagæslusamtök hér á landi.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrir í blaðinu sem kom út 23. aprí 2024
Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar birtist mynd af Rannveigu Magnúsdóttur í stað Vigdísar Fríðu Þorvaldsdóttur. Er beðist velvirðingar á þessu.