Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sagði við kynningu fjárlaga næsta árs að niðurskurður á ríkisútgjöldum væri óskynsamlegur sökum þess að hann kynni að leiða til fjöldaatvinnuleysis þeirra sem starfa hjá hinu opinbera. Þessi skoðun Sigurðar afhjúpar þá sérstöku sýn ráðherrans að ríkisstarfsmenn geti ekki fundið sér neitt að gera í einkageiranum en hvað um það.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sagði við kynningu fjárlaga næsta árs að niðurskurður á ríkisútgjöldum væri óskynsamlegur sökum þess að hann kynni að leiða til fjöldaatvinnuleysis þeirra sem starfa hjá hinu opinbera. Þessi skoðun Sigurðar afhjúpar þá sérstöku sýn ráðherrans að ríkisstarfsmenn geti ekki fundið sér neitt að gera í einkageiranum en hvað um það.

Sigurður Ingi hefur rangt fyrir sér. Það er mjög skynsamlegt að sýna aðhald og ráðdeild í ríkisrekstrinum – það er ekki bara skynsamlegt heldur nauðsynlegt. Frá árinu 2019 hafa ríkisútgjöld aukist um þriðjung á föstu verðlagi eða þrefalt meira en uppsafnaður hagvöxtur á tímabilinu.

Það er ekki svo að þessi útgjaldaaukning hafi eingöngu runnið í heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál á tímabilinu. Þvert á móti. Útgjaldaaukningin hefur meðal annars verið nýtt til þess að þenja út opinbera stjórnsýslu. Hvar sem fæti er drepið niður kemur í ljós að stöðugildum í stjórnsýslunni hefur fjölgað gríðarlega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara þessa lands.

Þannig hefur stöðugildum í Stjórnarráðinu fjölgað um 157 á sjö árum og starfa nú 637 í ráðuneytum landsins. Þetta er um 30% fjölgun. Starfsmönnum Alþingis hefur fjölgað um 60% frá aldamótum og hefur kostnaður við þinghaldið tvöfaldast á þessum tíma. Fleiri dæmi eru um ofvöxt í ríkisrekstrinum. Árið 2017 störfuðu sautján hjá Framkvæmdasýslunni en í dag eru starfsmennirnir 77.

Hafa verður í huga að verkefni stofnana hins opinbera ættu að vera í föstum skorðum og breytast lítið frá ári til árs. Þar af leiðandi er þessi ofvöxtur starfsmannahalds nánast óskiljanlegur.

Svo virðist að stærðarhagkvæmni og skilvirkni í krafti stafrænnar tækni séu ókunn hugtök í opinberum rekstri. Verður þetta að teljast með nokkrum ólíkindum þar sem þetta er þvert á alla þróun á almennum vinnumarkaði þar sem færri hendur skila sífellt síauknum verðmætum og fækkun starfsfólks í einum geira leysir úr læðingi sköpunarkraft og nýsköpun í öðrum. Þannig virðast sameiningar stofnana ekki leiða til neinnar stærðarhagkvæmni þegar kemur að mannahaldi.

Þessi ofvöxtur stjórnsýslunnar segir okkur að það verði býsna auðvelt að spara í ríkisrekstrinum og skera niður án þess að það bitni á þjónustu við fólk og fyrirtæki. Augljóst er að mikið spik hefur sest á ríkisrekstrinum í formi tilgangslausra sérfræðistarfa sem auðvelt er að leggja niður án þess að það hafi mikil áhrif á þjónustu stjórnsýslunnar. Hvað ætli margir sinni störfum almannatengla eða fjölmiðlafulltrúa í Stjórnarráðinu eða þá í opinberum stofnunum? Rekstur hins opinbera á að setja í bráðnauðsynlega megrun til þess að hann standist til framtíðar.

Eins og orð Sigurðar Inga gefa til kynna virðist ekki mikill áhugi hjá stjórnmálamönnum fyrir því að takast á við þann vanda. Vinstri flokkarnir á þingi bera ábyrgð á sams konar þróun í Reykjavík þar sem fjölgunin í stjórnsýslunni hefur verið nánast stjórnlaus á undanförnum árum. Það er helst að Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi sýnt þessu máli áhuga og varpað ljósi á eðli vandans með fjölda fyrirspurna. Það yrði ekki til að skaða flokkinn ef fleiri þingmenn hans legðust á sveif með Diljá í þessu máli.

Til eru þeir sem líta á það sem markmið í sjálfu sér að ríkið taki sem mest af launafólki og fyrirtækjum. Það er galið sjónarmið og nauðsynlegt er að fylgjast grannt með sóun í ríkisrekstrinum. Hún er mikil og nauðsynlegt að taka á þeim vanda

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. september 2024.