Það er erfitt ástand á mörkuðum og viðsjárverðir tímar framundan. Hrafnarnir vita sem er að það er aðeins á færi snjöllustu fjárfesta að ávaxta fé sitt um þessar mundir.
Enginn virðist vera snjallari en Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, og eiginmaður hennar, Hafþór Ólafsson. Einsýnt er að þegar viðskiptamiðlar gera upp árið gangi þau að verðlaunum vísum.
Líkt og fram hefur komið keyptu hjónin heimili sitt í Garðabæ á 55,4 milljónir árið 2007 en hættu svo að borga af lánum sem á því hvíldi árið 2014 en bjuggu þó í því til 2017, er húsið var selt á uppboði. Þau leigðu húsið svo þangað til þau keyptu það aftur af Arion banka árið 2019. Kaupverðið þá var næstum það sama og tólf árum áður eða 55,5 milljónir, sem blasir við að var langt undir markaðsverði eignarinnar á þeim tíma.
Hjónin hafa nú sett húsið á sölu og er ásett verð 174,9 milljónir. Fái þau uppsett verð nemur ávöxtun fjárfestingarinnar því rúmlega 315% á um sex árum eða tæplega 53% á ári.
Hrafnarnir telja einboðið að Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarformaður Neyðarsjóðs Ragnars Þórs Ingólfssonar, leiti til Ásthildar eftir fjárfestingaráðgjöf.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.