Tilraunir stjórnmálamanna til að sækja fé í lífeyrissjóðina kemur ekki á óvart. Allt frá hruni hefur verið hætta á að sjóðirnir yrðu þjóðnýttir með einum eða öðrum hætti. Umræða um almennar skuldaniðurfellingar og íhlutun stjórnmálamanna um þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun verkefna hefur hoggið ansi nærri sjálfstæði þeirra. Ásetningurinn er vissulega góður en fordæmið hættulegt. Milljarðarnir sem lífeyrissjóðunum er treyst fyrir er ávísun launþega á afhendingu lífeyris á efri árum. Sé gengið í þessa sjóði er verið að endurdreifa peningum fólksins og taka af einum til að afhenda öðrum.

Þórey Þórðardóttir - Landssamband lífeyrissjóða
Þórey Þórðardóttir - Landssamband lífeyrissjóða
© BIG (VB MYND/BIG)

Stjórnmálamenn verða að átta sig á samhengi hlutanna. Vissulega hafa stjórnendur lífeyrissjóðanna staðið vörð um réttindi sjóðsfélaga og ber að hrósa þeim fyrir að standa vel vaktina. Þeir hafa á sama tíma reynt að koma til móts við það sjónarmið að lífeyrissjóðirnir eigi að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífsins eftir hrun. Stofnun Framtakssjóðsins var liður í því.

Einnig fjármögnun afmarkaðra verkefna. Það hefur þó ekki ennþá verið gert á kostnað ávöxtunar. Pólitískum afskiptum hefur verið reynt að halda í lágmarki.

Það er ekki auðveld barátta fyrir forystumenn lífeyrissjóðanna. Alls staðar hafa verið uppi kröfur um aðkomu þeirra þar sem skammtímahagsmunir hafa ráðið meiru en hagsmunir fólksins, sem hefur á löngum tíma safnað réttindum með mánaðarlegu framlagi af launum sínum. Nú síðast litaði þessi afstaða málflutning formannsframbjóðenda í Sjálfstæðisflokknum. Það er því lítið skjól að finna sem endurspeglast í skattlagningaráformum löggjafans.

Í síðasta Viðskiptablaði var upplýst að frá og með næstu áramótum standi til að leggja sérstakan eignaskatt á lífeyrissjóðina til að fjármagna vaxtaniðurgreiðslur eignafólks, sem er að borga af húsnæði sínu. „Ef skattur er á annað borð kominn á, þá er það sjaldnast þannig að hann leggist af síðar. Það er sagt að eignaskatturinn verði tímabundinn, en það verður hann líklega aldrei,“ sagði Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, í viðtali við Viðskiptablaðið.

Áhyggjur hennar eru réttmætar. Til stóð að leggja á tímabundinn auðlegðarskatt sem nú er búið að framlengja. Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður færir rök fyrir því í grein í Viðskiptablaðinu að auðlegðarskatturinn gæti falið í sér brot á ákvæðum stjórnarskrár á friðhelgi eignaréttarins. Standist skattheimtan lög þá sé eignaupptaka orðin leyfileg að hætti sósíalismans.

Þórey bendir á að eignaskattur á lífeyrissjóði komi fram sem bein skerðing á lífeyrisgreiðslum. Í opinbera kerfinu, þar sem ríki og sveitarfélög ábyrgjast lífeyrisgreiðslur starfsmanna, sé verið að færa úr einum vasa í annan. Þetta sé í hreinni andstöðu við áform um að jafna réttindi milli almenna lífeyriskerfisins og hins opinbera. Það sé því hæpið að þessi leið standist grundvallarjafnræði og því vel hugsanlegt að hún standist ekki stjórnarskrá.

Á sama tíma er dregið úr hvata fólks til að leggja meira fyrir í séreignarsjóði með því að lækka hlutfall skattfrjálsra greiðslna. Það styður líka skoðun Þóreyjar að enn og aftur hafa stjórnvöld framlengt heimild fólks til að taka út séreignarsparnað sinn. Bæði sveitarfélög og ríkissjóður geta ekki án þessara skatttekna verið. Ein forsenda um auknar tekjur í fjárlagafrumvarpi næsta árs byggir einmitt á þeirri staðreynd. Fái hið opinbera einu sinni skatttekjurnar er ekki aftur snúið. Undanfarið hafa grunnstoðir lífeyrissjóðakerfisins veikst og það færst meira í átt að gegnumstreymiskerfi. Sjóðasöfnunin hvílir á veikari forsendum og ástandið á fjármálamörkuðum, sérstaklega í ljósi gjaldeyrishafta, takmarkar möguleika á ávöxtun peninganna. Á sama tíma eru sóttir meiri peningar í sjóðina með skattheimtu eins og eignaskatti og fjársýsluskatti.

Freistingin er til staðar. Gegn henni verða fulltrúar launþega og atvinnurekendur að standa.