Hrafnarnir iða í skinninu vegna ESA-dagsins sem Eftirlitsstofnun EFTA heldur hér á landi í vikunni, í samstarfi við Alþingi, Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands. Fundurinn fer fram á fimmtudag og þar mun Árni Páll Árnason, varaforseti ESA, meðal annars flytja erindið: Af hverju erum við með þetta vesen?

Hrafnarnir gefa sér að titill erindisins bendi til þess að Árni Páll hyggist útskýra hvað sé að frétta af rannsókn ESA á meintri einokun á markaði með bílalúguapótek á höfuðborgarsvæðinu.

Sem kunnugt er sendi ESA vasklega sveit manna til landsins í október, til að framkvæma húsleitir hjá Skel – vegna Lyfjavals – og hjá Lyfjum og heilsu. Þeir nutu þar liðsinnis Páls Gunnars Pálssonar og fólksins hans hjá Samkeppniseftirlitinu.

Húsleitirnar voru væntanlega til marks um að hinn sameiginlegi markaður Evrópu nötri af áhyggjum vegna þróunar bílaapótekamarkaðarins á Íslandi. Hrafnarnir hlakka til að hlýða á Árna Pál fara yfir málin á fimmtudaginn.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum VIðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 7. maí 2025.