Vinstri grænir bera fulla ábyrgð á stjórnarslitunum. Niðurstaðan var óumflýjanleg eftir að Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, lýsti einhliða yfir að kjósa ætti næsta vor og lýsti yfir að flokkurinn myndi ákveða hvaða mál íkisstjórnarinnar fengju framgang í vetur og hver ekki.

Með þessum óheilindum snéru ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna baki við samkomulaginu sem þeir gerðu við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn þegar flokkarnir „endurnýjuðu heitin“ eins og það var kallað eftir að Katrín Jakobsdóttir ákvað að láta af störfum sem forsætisráðherra.

Framganga Vinstri grænna í þessum efnum sem og öðrum sem komið hafa fram undanfarið vekur upp áleitnar spurningar um hvort flokkurinn sé
yfirhöfuð stjórntækur undir núverandi forystu.

Ef að líkum lætur verður gengið til kosninga við lok nóvember. Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans er 20. þess mánaðar. Líklegt er að niðurstaða þess fundar verði frekari lækkun stýrivaxta. Ljóst má vera af máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra við síðustu vaxtaákvörðun að kólnunin í hagkerfinu er hröð og Seðlabankinn þarf að vera snar í snúningum ef ekki á illa að fara. Á sama tíma er verðbólgan á hraðri niðurleið. Þannig spáir Landsbankinn að hún verði komin í ríflega 4% næstkomandi janúar.

Lækkandi stýrivextir og vaxandi verðstöðugleiki myndu að öllu óbreyttu skapa traustar stoðir fyrir áframhaldandi eflingu lífskjara hér á landi. Óábyrg yfirboð um útgjaldaaukningu í aðdraganda kosninga gera það ekki.

Fráfarandi ríkisstjórn hefur ekki haldið vel á spöðunum þegar kemur að ríkisfjármálum. Í stað þess að draga úr útgjöldum eftir að heimsfaraldurinn rann sitt skeið á enda var gefið enn frekar í við aukningu ríkisútgjalda.

Gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna hefur eigi að síður fyrst og fremst beinst að því að fráfarandi stjórn hafi ekki aukið útgjöldin enn frekar. Kjarninn í þeirri stefnu sem endurnýjuð Samfylking boðar undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur felst í frekari útgjaldaaukningu ríkisins og skattahækkunum. Flokkur fólksins, Píratar og Viðreisn hafa talað á sama veg og lítið mál verður vafalaust að fá Framsóknarflokkinn og Vinstri græna til fylgilags við slíkt eftir kosningar – það er að segja ef síðarnefndi flokkurinn nær þá manni inn.

Þessi stefna hefur verið sett fram á forsendu hugsunarvillu sem kenna má við frasann: Það er nóg til! Stjórnmálamenn sem aðhyllast þessa hugsunarvillu telja að hægt sé að fjármagna útgjöld ríkisins út í hið óendanlega með hækkun alls kyns skatta og lokun á ímynduðum „ehf-götum“. Fjármagnstekjuskattur og bankaskattur eru oftast nefndir í þessu samhengi.

Staðreynd málsins er hins vegar að meira en helmingur af tekjum ríkisins kemur vegna virðisaukaskatts og tekjuskatts á einstaklinga. Þeir skattar verða trauðla hækkaðir enn frekar. Fjármagnstekjuskattur skilar aðeins um 6% af heildarskatttekjum ríkisins og bankaskatturinn aðeins 1%. Þetta er ekki til marks um skort á metnaði stjórnmálamanna til þessa í skattheimtu. Stærð skattstofnsins er ekki meiri.

Ísland er háskattaland og ljóst er að skattprósenta þessara skatta og fleiri annarra verður ekki hækkuð án þess að grafa alvarlega undan efnahagslegum stöðugleika. Slíkar skattahækkanir myndu því á endanum skila litlu í ríkiskassann. Rétt er að benda á nýlega reynslu Norðmanna af auðlegðarskatti í þessu samhengi.

Mikilvægt er að kjósendur í komandi kosningum geri sér grein fyrir þessu. Það er ekkert „nóg til“ af þeim tekjum sem heimili og fyrirtæki afla sér og takmörk fyrir því hversu langt ríkisvaldið geti seilst í þá vasa.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. október 2024.