Í heimi þar sem flestir eru með snjallsíma og sitja við tölvur alla daga leynast hætturnar víða og því mikilvægt að setja upp persónulegar varnir og leikreglur þegar kemur að því að verjast fjársvikum. Við stjórnum okkar vörnum þegar kemur að notkun korta og rafrænna skilríkja bæði við samþykki á greiðslum sem og auðkenningum vegna innskráninga á vefsíður.
Í heimi þar sem flestir eru með snjallsíma og sitja við tölvur alla daga leynast hætturnar víða og því mikilvægt að setja upp persónulegar varnir og leikreglur þegar kemur að því að verjast fjársvikum. Við stjórnum okkar vörnum þegar kemur að notkun korta og rafrænna skilríkja bæði við samþykki á greiðslum sem og auðkenningum vegna innskráninga á vefsíður.
Setjum okkar eigin leikreglur
Góð regla er að forðast það að smella á hlekki sem koma í tölvupóstum eða sms skilaboðum og opna frekar leitarglugga og slá inn viðeigandi vefslóð eða fara beint inn á app. Þegar við fáum send skilaboð með tölvupósti, sms eða messenger, er mikilvægt að skoða vel hvaðan skilaboðin koma og hver raunverulegur sendandi er með því að skoða netfang sendanda og símanúmer þess sem sendir sms skilaboð. Þetta á við hvort heldur sem skilaboðin eru vinnutengd eða send til okkar persónulega.
Við innskráningu í netbanka, hvort sem það er í gegnum bankaapp eða vefsíðu banka skal alltaf fara inn á bankaappið sjálft eða beint inn á vefsíðu bankans, innskráning í netbanka og app fer aldrei fram í gegnum annan aðila með því að smella á hlekk.
Fáir þú senda beiðni frá vini um þátttöku í leik gegnum messenger eða aðra samfélagsmiðla þá er leikreglan sú að ef óskað er eftir því að þú samþykkir auðkenningar með rafrænum skilríkjum, sendir frá þér kóða sem þú færð í SMS skilaboðum eða kortaupplýsingar þá eru það alltaf svik.Kynntu þér hvernig fyrirtæki senda þér skilaboð, flutningsfyrirtæki senda t.d. ekki sms skilaboð með hlekkjum til að óska eftir kortaupplýsingum eða senda þér auðkenningu með innskráningu í bankaapp. Flest fyrirtæki beina þér inn á ,,mínar síður“ á vefsíðum sínum eða senda kröfu í netbanka.
Varnir í kortaviðskiptum
Til að auka öryggi okkar í kortaviðskiptum eru ýmsar leiðir færar til að setja auknar varnir á kortin. Í Landsbankaappinu er hægt að fara inn í stillingar á kortum og loka fyrir þjónustur sem við erum ekki að nota hverju sinni, t.d. úttektir á reiðufé í hraðbanka, netverslun eða kortanotkun erlendis. Með auðveldum hætti er svo hægt að kveikja á þessum möguleikum aftur í appinu þegar við þurfum að nota þá.
Þessi möguleiki er einnig mikilvægur þegar við viljum aðstoða okkar nánustu og fara yfir með þeim hvaða stillingar er mögulegt að setja á kortin til að verja þau fyrir svikum.
Berum virðingu fyrir rafrænum skilríkjum
Ábyrgðin er hjá okkur sjálfum við notkun á rafrænum skilríkjum. Auðkenningar skal aldrei samþykkja nema þegar við sjálf erum sannarlega að auðkenna okkur hvort sem um ræðir t.d. innskráningu á vefsíður hjá opinberum aðilum eða í bankann okkar. Þá skiptir mestu máli að lesa vel yfir þann texta sem birtist áður en við samþykkjum auðkenningu.
Það sama gildir þegar við erum að nota kortin okkar í netverslun. Þá er mikilvægt að spyrja sig, erum við að versla á öruggum síðum, höfum við notað síðuna áður eða einhver sem við þekkjum notað sömu síðu? Ef ekki þá er mikilvægt að skoða betur og fletta upp í leitarvélum hvort óhætt sé að versla á vefsíðunni og fylgjast með hvort það komi upp örugg greiðslusíða þegar greitt er fyrir vöruna. Það allra mikilvægasta er svo þegar við höfum tekið ákvörðun að versla í gegnum vefsíðu að lesa mjög vel yfir textann sem birtist á símanum við auðkenningu með rafrænum skilríkjum áður en við samþykkjum greiðslu og skoða sérstaklega hvort um er að ræða réttan söluaðila, hvort fjárhæðin er rétt og í réttum gjaldmiðli.
Að missa fókus í augnablik með því að samþykkja greiðslu eða innskráningu án þess að lesa skilaboðin í rafrænum skilríkjum getur leitt til þess að við töpum háum fjárhæðum.
Verum vakandi og förum vel með rafrænu skilríkin okkar.
Höfundur er sérfræðingur í regluvörslu Landsbankans.