Á mánudaginn breytti Standard og Poor´s langtímahorfum lánshæfismats Bandaríkjanna í neikvæðar. Slæm skuldastaða Bandaríkjanna hefur verið almælt tíðindi svo lengi sem elstu menn muna og hefur til dæmis hagfræðingurinn Laurence Kotlikoff, sem er mikilsvirtur sérfræðingur á þessu sviði, ítrekað haldið því fram að miðað við núverandi stöðu ríkisfjármála séu Bandaríkin gjaldþrota. Það sama er uppi á teningnum í Evrópu eins og Óðinn fjallaði um í síðustu viku.

Fjármálamarkaðir ættu því ekki að hafa kippt sér mikið upp við þessar fréttir. Fréttaveitur og álitsgjafar fóru hins vegar mikinn og á forsíðum blaðanna eru fréttir þess efnis að verð hlutabréfa hafi lækkað og álitsgjafar telja þessi miklu tíðindi til marks um að forseti Íslands hafi haft rangt fyrir sér þegar hann gerði lítið úr lánshæfismatsfyrirtækjunum.

Það er mjög sjaldgæft að það gerist nokkur skapaður hlutur á verðbréfamörkuðum, enda ef horft er yfir löng tímabil er þróun þeirra tiltölulega stöðug. Hins vegar er mikil spurn eftir fréttum af verðbréfamörkuðum og þegar engum fréttum er til að dreifa eru sagðar sögur. Markaðurinn ætlar að gera hitt og þetta rétt eins og hann hafi vilja, hinir stóru ætla að gera hitt og þetta rétt eins og þeir viti eitthvað betur en aðrir hvað framtíðin ber í skauti sér. Stór hluti frétta af verðbréfamörkuðum er því lítið annað en flökkusögur með stuttan líftíma.

Þetta sést glögglega í tilfelli fréttarinnar af lækkun á horfum lánshæfismats Bandaríkjanna í upphafi vikunnar. Gengi S&P 500 vísitölunnar lækkaði um 1,1% á þriðjudag og ef skoðaðar eru daglegar verðbreytingar vísitölunnar frá áramótum sést að staðalfrávikið er 0,8%. Verðbreytingin á þriðjudag var því breyting sem við ættum að eiga von á einu sinni í viku. Sem stemmir nokkurn veginn við að þetta er 12. mesta verðbreyting vísitölunnar frá áramótum.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því frétt S&P birtist um miðjan dag. Ef verðbreyting vísitölunnar innan dagsins er skoðuð sést að hún er 0,6%, en staðalfrávik breytinga innan dags í ár er 0,7%. Verðbreytingin innan dags á mánudaginn var því 0,9 staðalfrávik sem þýðir að við ættum að eiga von á slíkri verðbreytingu innan dags tvisvar í viku.

Það er því ekki hægt að segja að markaðir hafi talið mikið upplýsingagildi í frétt Standard & Poor´s.