Við sem þjóð höfum tekið stórar ákvarðanir. Ákvarðanir sem hafa breytt samfélagi okkar til hins betra, stuðlað að verðmætasköpun og auknum lífsgæðum. Okkur hefur borið gæfa til að virkja hugvitið í gegnum aldirnar. Til dæmis þegar við réðumst í uppbyggingu á öflugu raforkukerfi og hitaveitu. Af sömu ástæðu þurfum við að halda áfram að nýta hugvitið til að skapa störf og tækifæri, auka vöxt og verðmætasköpun um leið og við bætum lífsgæði þjóðarinnar til framtíðar. Þar þurfa stjórnmálin, atvinnulífið og menntakerfið að spila saman.
Þegar ég settist í ráðuneyti háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar setti ég fram þá skýru sýn að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum væri að hugvitið yrði okkar stærsta útflutningsgrein. Verkefni stjórnvalda er að tryggja að hugmyndir sem munu breyta og bæta samfélagið geti orðið að veruleika, að umhverfið styðji framtak fólks og flækist ekki fyrir. Þar skiptir samkeppnishæfni okkar öllu máli, hvort sem litið er til menntunar, mannauðs, regluverks, tækni, nýsköpunar eða orku.
Einstakur íslenskur iðnaður
Þegar ég hugsa um íslenskan iðnað þá skjóta upp í hugann fjölmörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum sem standa sig í samkeppni alla daga. Fyrirtæki þar sem eigendur leggja allt undir með starfsfólki sínu til að skapa sér og sínum lífsviðurværi og verðmæti fyrir þjóðarbúið. Á ferðum mínum um landið hef ég rætt við fólk í sinni heimabyggð, hvað brennur á fólkinu sem stígur þrekhjólið alla daga í rekstrinum og öllum þeim þúsundum og tugþúsundum sem eru nú að störfum um allt land, að byggja, flytja, framleiða, þjónusta, skapa og hugsa fyrir þörfum samfélagsins.
Verkefnið er að koma betur til móts við þarfir iðnaðarins þannig að stórar hugmyndir verði áfram að veruleika. Iðnaðurinn er ofinn inn í allt samfélagsverkið hvert sem við horfum, til nýtingu sjávarafla, orkuvinnslu eða framleiðslu. Iðnaður er íslenskt atvinnulíf og grunnur að þeim lífskjörum sem við búum við. Frá því við vöknum þar til við sofnum – og á meðan við sofum - kemur iðnaður með einum eða öðrum hætti við líf okkar.
Stjórnmálamenn þurfa að vera á varðbergi gagnvart ítrekuðum hugmyndum og tillögum um þungt regluverk sem hamlar samkeppnishæfni. Á forsendum einfaldara lífs, frelsis og samkeppni eigum við að gera betur. Verkefnið er að leysa krafta úr læðingi en festast ekki í skrifræði eða flókinni lagasetningu.
Öflugur mannauður er forsenda vaxtar
Heimurinn er í kapphlaupi um fólk. Meðal annars um fólk með sérhæfða þekkingu og færni svo vaxtatækifæri atvinnulífsins raungerist. Í þeirri samkeppni þurfum við að taka þátt. Það er ekki til neins að efla menntun, fjölga nemendum í STEAM greinum og greiða leið sérfræðinga til landsins ef íslensk fyrirtæki standast ekki erlendum keppinautum snúning. Stjórnmálin verða að gera sér grein fyrir því að það eru takmörk fyrir því hvaða kvaðir þau geta lagt á fyrirtækin okkar ef við ætlum ekki að verða undir í samkeppni þjóða um fólk.
Menntakerfið þarf líka að mæta áskorunum samfélagsins. Samtök iðnaðarins hafa bent á að það vantar hátt í fjórtán þúsund sérfræðinga á Íslandi næstu árin svo að áætlanir um vöxt í hugverkaiðnaði geti orðið að veruleika. Það er ábyrgð okkar allra að bæta þá stöðu. Ef okkur er alvara með að hér byggist upp alþjóðlegt þekkingarsamfélag sem eykur bæði lífsgæði og fjölgar tækifærum þurfum við fólk. Við þurfum bæði fleiri alþjóðlega sérfræðinga og að mennta fólk í þeim greinum sem samfélagið kallar eftir. Það er óásættanlegt að Ísland sé í 87. sæti landa sem útskrifa úr raunvísinda-, verk- og tæknigreinum (STEM) og það dregur verulega úr samkeppnishæfni okkar á alþjóðlegum mælikvörðum.
Til þess að hugvitið geti haldið áfram að vaxa hér á landi verður menntakerfið að vera í lykilhlutverki. Ég hef lagt áherslu á stóra kerfisbreytingu í háskólunum um árangurstengda fjármögnun og hvata til þess að styðja við áskoranirnar sem við okkur blasa.
Staða drengja í íslensku menntakerfi ætti að vera okkur öllum áhyggjuefni. Síðastliðin ár hafa þeir t.d. aðeins verið um þriðjungur nemenda í Háskóla Íslands. Við höfum staðið fyrir átaki undir yfirskriftinni Heimurinn stækkar í háskóla og nú næst Taktu stökkið. Markmiðið er að hvetja ungt fólk, sérstaklega stráka, til að skrá sig í háskóla og sjá tækifærin sem felast í því að mennta sig til fjölbreyttra starfa í samfélaginu. Enn menntum við mun færri í háskólum og iðnnámi en löndin sem við berum okkur saman við.
Áskoranirnar í menntakerfinu eru ekki síst í grunnskólakerfinu sem er grunnurinn að jöfnum tækifærum og sókn samfélagsins. Árangur íslenskra nemenda í samanburðarmælingu PISA mælist undir meðallagi OECD ríkja og Norðurlanda í öllum þáttum og fer hrakandi. Atvinnulífið á ekki að láta sitt eftir liggja í umræðu um menntamálin, því að af mörgu er að taka og þessi staða er samspil margra þátta yfir langan tíma.
Þá höfum við náð fram löngu tímabærum lagabreytingum sem auðvelda alþjóðlegum sérfræðingum að koma til Íslands. Mikilvægar breytingar á atvinnuréttindum útlendinga utan EES-svæðisins með það að leiðarljósi að það verði einfaldara og þjónustumiðaðra en umfram allt samkeppnishæfara.
Stækkaðu framtíðina
Ég hef haft forgöngu um að innleiða hér á landi verkefni að breskri fyrirmynd ,,Inspiring the Future” eða Stækkaðu framtíðina. Verkefnið hefur það að markmiði að víkka sjóndeildarhring nemenda og gefa öllum ungmennum á Íslandi tækifæri til að eiga fjölbreyttar fyrirmyndir. Það er gert með því að tengja atvinnulífið við skólasamfélagið þar sem einstaklingar segja frá starfi sínu og menntun. Verkefnið miðar að því að öll börn og ungmenni sjái fjölbreyttari fyrirmyndir, kynnist nýjum störfum og heyri sögur frá fólki sem býr yfir ólíkri reynslu. Ég hvet atvinnulífið að taka þátt og gefa börnunum klukkustund.
Umhverfi fyrir hugmyndir
Umhverfi nýsköpunar er að sama skapi stöðug áskorun til að tryggja að hugmyndir nái að verða að veruleika. Nýsköpun gegnir mikilvægu hlutverki er kemur að verðmætasköpun á sama tíma og rannsóknir og þróun eru mikilvægir hlekkir fyrir hagkerfið. Þetta eru arðbærustu hlekkir framleiðslukeðjunnar, þar sem mestur virðisauki liggur. Þarna eru hæstu launin greidd og mestu skatttekjurnar innheimtar. Höfum einnig í huga að rannsóknir og þróun eru iðulega þess eðlis að það gengur ekki á takmarkaðar auðlindir og veitir öflugan stuðning og verðmætaaukningu fyrir aðra geira. Til viðbótar eru margföldunaráhrif virðisaukningar þegar kemur að verðmætasköpun innan hagkerfa vegna myndunar þekkingar sem er margnýtanleg.
Verkefnið er að vinna áfram að því að gera stuðningsumhverfið samkeppnishæft. Áframhaldandi öflugur stuðningur við samkeppnissjóði og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar. Samtímis legg ég mikla áherslu á að einfalda umhverfið, minnka umsýslukostnað og greina áhrif þessa stuðnings.
Gervigreindin mun síðan gjörbreyta heimsmyndinni. Hún mun auðvelda nám og rannsóknir með sjálfvirkum greiningum, bæta vinnuflæði og skapa nýjar leiðir til að leysa vandamál. En henni fylgja líka stórar áskoranir og vissulega ósvöruðum spurningum en ekki síður fjölmörg tækifæri, ekki síst fyrir bættan ríkisrekstur.
Orka og frumkvöðlar
Í rúma öld hafa Íslendingar nýtt bæði vatnsorku og jarðvarma á sjálfbæran hátt. Ákvörðun kynslóðar sem á undan okkur kom um að breyta jarðneytiseldsneyti yfir í sjálfbæra framleiðslu og mæta orkuþörf okkar með endurnýjanlegum orkugjöfum hefur reynst okkur óendanlega mikilvæg. Við fórum úr því að vera fátækt eyríki í velferðarsamfélag. Ákvörðunin var frumkvöðla sem notuðu hugvit sitt og kjark til að taka stóra ákvörðun sem svo gjörbylti samfélaginu.
Ísland hefur skipað sér í fremstu röð á sviði jarðhitanýtingar. Þar búum við yfir mikilsverðri þekkingu, auðlind sem við eigum að nýta enn frekar. Ekki bara fyrir umhverfið og okkur sem þjóð heldur líka til uppbyggingu viðskiptatækifæra um heim allan. Með því að nýta fallvötnin og jarðvarmann jukum við verðmætasköpun og tókum stórt skref í átt að auknum lífsgæðum þjóðarinnar. Þeirri reynslu eigum við að miðla samhliða því sem við tökum næstu stóru ákvarðanir til að nýta auðlindir og tækni svo að orka hamli ekki vaxtatækifærum.
Margt er gott í okkar samfélagi og annað má bæta. Óumdeilt er að tækifærin liggja víða. Stórhuga dugnaðarforkar munu eftir sem áður byggja upp okkar samfélag. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er að greiða þeim leiðina, ryðja óþarfa hindrunum úr vegi svo að þau sem fá stórar hugmyndir geti framkvæmt þær og breytt samfélögum til hins betra.
Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.