Eitt þó nokkurra opinberra svarthola, þeirra sem ryksuga til sín fjármagn skattgreiðenda og fara illa með, hefur lýst yfir vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þess.

Þetta liggur auðvitað í eðli svartholanna og því varla fréttnæmt, en engu að síður tilefni í einn bitran skoðanapistil að hætti Týs.

Í umsögn Strætó bs. um fjáraukalög 2022 sem Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri félagsins ritar segir að sveitarfélögin sem standi að Strætó hafi lagt Strætó aukalega til um milljarð umfram „hefðbundnar“ vísitöluhækkanir á árunum 2020 til 2023. Þá hafi stjórnvöld vissulega lagt til 120 milljónir - en betur megi ef duga skal. Strætó reyndi nefnilega að skerða þjónustu sína sem minnst í faraldrinum á meðan borgarbúar ferðuðust innanhúss, til að koma framlínustarfsmönnum til og frá vinnu.

***

Eitthvað segir Tý, að einkaaðili hefði fundið leiðir til þess að koma framlínustarfsfólki milli heimilis og vinnu á sama tíma og almenn þjónusta hefði verið skert verulega, svona í ljósi þess að eftirspurn eftir þjónustunni var nær enginn meðal meirihluta þeirra um 4% borgarbúa sem stíga upp í strætisvagna oftar en einu sinni í mánuði í venjulegu árferði. Svartholin hafa aftur á móti enga hvata til að hugsa í slíkum lausnum. Þeir biðja bara um meiri peninga frá skattgreiðendum og kveinka sér svo aumir í fjölmiðlum þegar þeir fá ekki allt sem þeir vilja - og fá þeir nú nóg samt.

„Það er einlæg von okkar að ósk okkar um aukinn sérstakan Covid styrk verði tekinn [sic] til greina og nauðsynlegar viðbætur gerðar á frumvarpi til fjáraukalaga, sérstaklega í ljósi þeirra ánægjulegra [sic] frétta um að staða ríkissjóðs sé um 60.000 m.kr. betri en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir í umsögninni sem skautar framhjá því – sennilega af ásetningi fremur en fávisku – að um sé að ræða minni halla en ekki fé í hendi. Þetta lið kann ekki að skammast sín.

***

Það er fyrir löngu fullreynt að fela hinu opinbera að sinna almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Það er kominn tími til að leyfa einkaframtakinu að spreyta sig. Það er ekki hægt að tapa á því.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 24. nóvember 2022.