Það er stundum þannig að sjálfstraust manna er í öfugu samhengi við þekkingu þeirra á þeim málum sem um ræðir. Guðmundur Ari Sigurjónsson, tómstundafræðingur og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, kvað sér hljóðs á Alþingi á mánudag í umræðum um upphæð veiðigjalds

Þar kvartaði hann sáran yfir því hversu lítið útgerðin borgi af markaðsverði aflans í veiðigjald, en að ríkisstjórnin hyggist engu að síður ekki breyta því. Það vakti athygli að Guðmundur Ari sagði fiskinn í sjónum vera hrávöru í eðli sínu og að því leyti skipti engu hvort horft væri til markaðsverðs í Noregi eða annars staðar í leit að viðmiðum fyrir útreikning veiðigjaldsins.

Einkenni hrávöru eru einsleitni og stöðlun, eins og má sjá á gulli og olíu, svo dæmi séu tekin. Ekkert af þessu á við fisk – það skiptir máli hvenær hann er veiddur, hvernig hann er veiddur, og meðferð aflans ræður miklu um endanlegt verðmæti.

Hröfnunum finnst ekki skrýtið að ríkisstjórnin sé komin á algjörar villigötur með áform sín um hækkun veiðigjalda, ef þetta er sú þekking sem liggur að baki gerð málsins.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 25. júní 2025.