Á Íslandi er manngerð orkukreppa. Það er fullkomlega fráleitt. Ástæða þessarar stöðu er sú að fólkið sem á að gæta hagsmuna okkar hefur hannað kerfi sem tryggir kyrrstöðu í stað sóknar. Sá veruleiki er einn stærsti áfellisdómur yfir stjórnmálafólki seinustu áratuga. Fólkið sem gafst upp á verðmætasköpun.
Evrópumet í kerfisvæðingu og embættisþvælingi
Við Íslendingar eigum í dag Evrópumet og jafnvel heimsmet í kerfisvæðingu og embættisþvælingi. Skýrt dæmi um það er að hér á landi fer orkuframkvæmd 69 sinnum í umsagnarferli og hver stofnun fjallar um málið allt að tíu sinnum. Í Danmörku og Finnlandi skapast kæruheimild vegna orkuframkvæmda tvisvar í ferlinu. Í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi er kæruheimildin vakin einu sinni í ferlinu. Hér á Íslandi opnast á kæru heimild sjö sinnum. Þetta sýnir svo glögglega hvað við erum búin að skapa klikkað kerfi í kringum eina okkar hreinustu og verðmætustu auðlind.
Þetta er ekki flókið
Ef við viljum sækja þá velferð sem er fólgin í hreinni orku þá er aðgerða þörf. Ef við viljum mæta loftslagsmarkmiðum þá þarf að verða breyting á. Ef við ætlum að vinna okkur úr úr orkukreppunni þá þarf þor og nennu. Það þarf að breyta kerfinu.
Þetta er ekki flókið. Byrjum á þessu:
1. Leggjum niður rammaáætlun:
Þar er um að ræða aðferð sem við reyndum og er í dag eingöngu til trafala. Til marks um það þá má til dæmis líta til þess að við tókum ramman upp að norskri fyrirmynd en Norðmenn lögðu niður ramman í þeirri mynd sem við notum fyrir 7 árum.
2. Búum til sérstakt og fljótvirkara ferli fyrir nýtingu endurnýtanlegra/sjálfbæra orkugjafa og loftslagsverkefna:
Ísland hefur í dag undirgengist fjöldamargar alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr hlýnun jarðar, auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í heiminum og bæta orkunýtingu. Það þarf að aðlaga kerfið að þessum áherslum.
3. Búum til sérstaka og fljótvirka gátt fyrir alla málsmeferð:
Svo sjálfsagt sem það er að tryggja vandaða málsmeðferð þá er jafn sjálfsagt að hún sé svo einföld sem mögulegt er. Setja þarf upp eina vefgátt sem sér um allt ferlið.
4. Stytta þarf tímalínur, sameina ferla og standa við tímafresti:
Núverandi „kerfi“ er að valda orkukreppu og í raun sett upp til að hindra nýtingu grænnar orku og þar með talið gengur þetta gegn áherslu samtímans á loftslagsmál.
5. Huga þarf að röð leyfa og ferla og skilyrða ekki ákvarðanir við leyfi síðar í ferlinu:
Í núverandi keri rekst hvert á annars horn. Þekkt eru til dæmis dæmi um að framkvæmdaleyfi sé fellt úr gildi þar sem starfsleyfi liggur ekki fyrir, en starfsleyfi er fyrir rekstri og á að koma þegar rekstur hefst, ekki framkvæmdir.
6. Þrengja þarf verksvið hverrar stofnunar:
Núverandi kerfi hefur útfært verksvið stofanna hins opinbera þannig að í of mögrum tilvikum eru þær að ganga inn á verksvið hverrar annarrar. Til að mynda þegar Umhverfisstofnun telur sig eiga að meta samræmi við skipulag.
7. Þröskuldsgildi á Íslandi eru í mörgum tilvikum hærra en annars staðar - Samræma þarf viðmið við upprunareglurnar:
Þekkt er að Íslensk stjórnvöld eru kaþólskari en páfinn þegar kemur að innleiðingum erlends regluverks. Oft kallað „gullhúðun". Það er mikilvægt að takmarka t.d. aðild að kærumálum og samræma við það sem gerist erlendis. Hérlendis teljast t.d. umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga eiga lögvarinna hagsmuna að gæta við mat á orkukostum. Kæruaðild er því mjög -jafnvel of- opin.
Manngerða orkukreppan þyngir rekstur heimila og kostar okkur velferð. Það er eftirspurn eftir stjórnmálafólki sem þorir að gera breytingar. Ég kalla hér með eftir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins geri ofangreindar breytingar og taki þar með mikilvæg skref út úr orkukreppunni.
Höfundur er sjálfstæðismaður og bæjarstjóri.