Rannveig Sigurðardóttir lætur af embætti varaseðlabankastjóra peningastefnu um áramótin.

Sjö umsækjendur eru um stöðuna og starfa fimm umsækjendur nú þegar í Seðlabankanum, þeirra á meðal Þórarinn G. Pétursson framkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs. Þá sóttu Daníel Svavarsson skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna um embættið. Hæfnisnefnd mun meta hæfi umsækjandanna.

Hrafnarnir eru sannfærðir um að allt sé þetta hið mesta sómafólk sem er fullfært um að gegna embætti varaseðlabankastjóra. En þeir telja að vel væri á því að annaðhvort Óttar eða þá Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Seðlabankans, fái stöðuna. Það væri ágætt að fá fólk með beina reynslu úr fjármálageiranum inn í peningastefnunefndina og víkka þar með út þá reynslu sem núverandi nefndarmenn koma með að borðinu. Fyrir utan Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra hafa núverandi nefndarmenn ekki mikla reynslu úr bankageiranum en það gera Sturla og Óttar hins vegar.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. nóvember 2024.