Eins og hrafnarnir bentu á í haust hefur Þórhallur Gunnarsson samskiptaráðgjafi verið Pírötum innan handar þegar kemur að ímyndunarmálum og almannatengslum.

Þetta samstarf hefur greinilega orkað sterkt á Þórhall sem er tíðrætt um afburðargreind Pírata og djúpstæðan skilning þeirra á gangverki heimsins. Þórhallur var svo gestur í Silfrinu á mánudag. Þar sagði hann landsmönnum í óspurðum fréttum frá framúrskarandi frammistöðu Lenyu Rúnar, leiðtoga Pírata í Reykjavík, í kosningabaráttunni.

Annars virðist ríkismiðillinn hafa mikinn áhuga á öllu því sem Þórhallur tekur sér fyrir hendur. Hann stjórnar hlaðvarpinu Bakherbergið með Andrési Jónssyni kollega sínum og margoft hefur verið sagt frá gríðarlegum vinsældum þáttanna í dægurmálaþáttum í Efstaleitinu. Þannig var Andrés til viðtals í síðdegisútvarpinu á mánudag þar sem hann ræddi áðurnefndar vinsældir og þingmannaspá þeirra Þórhalls en eftir henni mátti greina af hinum ofurpeppuðu þáttastjórnendum Rásar 2 að þjóðin hafi eftir með öndina í hálsinum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. nóvember 2024.