Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld – hinn svokallaði bandormur með fjárlagafrumvarpinu.
Það kennir ýmissa grasa í frumvarpinu en þar munar einna helst um viðamiklar breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009, sem að mati höfundar eru ekki til bóta. Rétt er að nefna nokkrar þeirra.
Lækkun skattfrádráttar
Miðað við núgildandi fyrirkomulag þá fela breytingarnar meðal annars í sér lækkun á hámarki kostnaðar til útreiknings á skattfrádrættinum, úr 1.100 mkr. í 1.000 mkr.
Þá lækkar hlutfall frádráttarins fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki úr 35% í 34% og fyrir stór fyrirtæki úr 25% í 22,5%.
Hámarks frádráttur í krónum talið fyrir stór fyrirtæki lækkar því um 18% og um 12% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Að auki er sá kostnaður þrengdur sem fellur undir rannsóknar- og þróunarverkefni.
Nefna má þó að þessi lækkun er minni en lagt var upp með í drögum að frumvarpinu, sem birtust í Samráðsgátt stjórnvalda fyrir skömmu. Þar var ætlunin að lækka hámark kostnaðar í 900 mkr. og frádráttarhlutfall stórra fyrirtækja í 15%. Ráðuneytið á hrós skilið fyrir að taka tillit til umsagna fjölmargra aðila, þ.m.t. Deloitte Legal, þar sem þessi áform voru gagnrýnd.
En auk þess að þrengja kostnaðargrunninn og lækka hámark kostnaðar og frádráttarhlutfall stórra fyrirtækja, þá er verið að fella umsóknir frá öllum tengdum aðilum undir eitt og sama hámarkið.
Á það bæði við um fyrirtæki sem eru hluti af samstæðu, en líka einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum. Þannig gætu t.d. systkin sem eiga sitthvort nýsköpunarfyrirtækið, sem hlotið hafa staðfestingu Rannís á sínum verkefnum, rekið sig á umrætt þak.
Frádrátturinn takmarkaður í tíma
Frumvarpið felur jafnframt í sér takmarkanir á framlengingu umsókna vegna sama verkefnis. Einungis verður hægt að framlengja sama verkefni tvisvar sinnum og næði það því að hámarki yfir þrjú fjárhagsár.
Þó verður opið fyrir að senda inn nýja umsókn fyrir nýtt verkefni á grundvelli þess eldra að þessum tíma liðnum, en frumvarpið er ansi óljóst hvað varðar þá þætti sem yrðu lagðir þar til grundvallar. Það liggur í eðli rannsóknar- og þróunarverkefna að þau geta bæði tekið umtalsverðan tíma og tekið breytingum á meðan þeim varir. Afmörkun af þessum toga er því vandasöm.
Fordæmalaus heimild til afturköllunar
Þá hefur frumvarpið að geyma heimild til handa Rannís að afturkalla staðfestingu sína á að verkefni teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni, bæði fyrir viðkomandi umsóknarár og tvö fjárhagsár þar á undan.
Upphafleg frumvarpsdrög voru ótímabundin hvað þetta varðar og breytingin frá þeim því að hluta til bóta. Ekki er hægt að gera athugasemdir við að heimilt sé að afturkalla staðfestingar þegar umsækjendur hafa veitt rangar eða villandi upplýsingar, enda þeirra að súpa seiðið af því.
Heimildin er þó fjarri lagi bundin við þau tilvik, heldur er Rannís heimilt að afturkalla staðfestingu sína ef um svokallaða forsendubreytingu er að ræða og þá meðal annars ef verkefni sem uppfyllti skilyrði laganna upphaflega gerir það ekki lengur.
Umsóknarferli Rannís er ansi viðamikið, þar sem kallað er eftir umfangsmiklum upplýsingum til að gera stofnuninni kleift að meta hvort að skilyrði laganna séu uppfyllt.
Það er því með öllu óljóst hvað gæti falist í umræddri forsendubreytingu. Höfundi er ekki kunnugt um jafn víðtækar heimildir stjórnvalds til að breyta eigin stjórnvaldsákvörðunum. Með álíka heimildum gætu stjórnvöld alltaf leiðrétt eigin vinnu eftir á, með tilheyrandi neikvæðum áhrif á þegna þessa lands, sem sitja þá uppi með skaðann þrátt fyrir réttmætar væntingar þeirra um að viðkomandi stjórnvald hafi sinnt lögbundnu hlutverki sínu, og gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar um rannsókn máls, jafnræði og meðalhóf.
Heimilt að leggja á tvöfalt álag
Neikvæðu áhrifin munu ekki aðeins felast í mögulegum endurgreiðslum á fengnum skattfrádrætti, til allt að þriggja fjárhagsára, heldur er Skattinum heimilt að leggja 25% álag á leiðréttan frádrátt fyrir hvert ár. Frumvarpið ætlar raunar að ganga skrefinu lengra og heimila Skattinum að leggja 25% álag á grundvelli laga um tekjuskatt og 25% álag á grundvelli laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Orkar það tvímælis með tilliti til banns við tvöfaldri refsingu, en að minnsta kosti er hér um algjört stílbrot að ræða á því viðurlagakerfi sem er í dag á sviði skattamála.
Hvað það varðar verður jafnframt að hafa í huga að ákvarðanir Rannís eru endanlegar á stjórnsýslustigi enda engin leið til að kæra þær ákvarðanir til æðra setts stjórnvalds. Ef aðilar eru þannig ósammála Rannís um afturköllun staðfestingar þá er eina leiðin fyrir þá að stefna ríkissjóði fyrir dóm, sem er trauðla æskilegt.
Því er alveg ljóst að verði frumvarpið samþykkt óbreytt þá verður þrengt verulega að umhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, þrátt fyrir að hugvitið sé „ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar og fjórða stoð íslensks efnahagslífs“ – svo vitnað sé beint í fjármálaáætlun 2025-2029.