Það er ákaflega mikilvægt að íslenska ríkið hrindi sem fyrst í framkvæmd áformum sínum um sölu á hlut sínum í Íslandsbanka. Það er ekki síst áríðandi í ljósi þess hvernig fjárstýringu íslenska ríkisins hefur verið háttað um langt skeið.
Viðvarandi halli hefur verið á rekstri ríkisins um árabil. Ríkissjóður hefur mætt þessari fjárþörf fyrst og fremst með útgáfu ríkisvíxla á undanförnum árum. Af einhverjum ástæðum hefur ríkissjóður forðast að gefa út lengri skuldabréf til þess að standa straum af hallarekstrinum þrátt fyrir að vaxtamunur á þeim og sambærilegum bandarískum skuldabréfum hafi verið í sögulegu lágmarki. Þess í stað hefur hann reitt sig á víxlaútgáfuna sem er umtalsvert dýrari fjármögnun.
Þó svo að Lánamál ríkisins hafi tilkynnt um útgáfu nýs óverðtryggðs skuldabréfaflokks með gjalddaga 2038 á árinu og tvo nýja verðtryggða ríkisbréfaflokka með gjalddaga eftir fimm og tíu ár á árinu liggur fyrir að ríkið mun áfram reiða sig á útgáfu á ríkisvíxlum. Lánsfjárþörfin er mikil en áætlanir gera ráð fyrir að ríkið gefi út pappíra fyrir 180 milljarða á árinu. Útgáfuþörfin verður mikil fram til ársins 2028 en fram undan eru stórir gjalddagar á skuldabréfum ríkisins.
Þessi mikla útgáfuþörf ríkisins hefur ruðningsáhrif á mörkuðum. Hún vinnur gegn lækkunum á kjörum annarra á skuldabréfamarkaðnum þrátt fyrir að vaxtalækkunarferli Seðlabankans sé hafið. Þessi áhrif sjást glögglega þegar niðurstöður síðasta víxlaútboðs Lánasýslunnar, sem fór fram í síðustu viku, eru skoðaðar. Þær sýna að fjárfestar eru ekki að verðleggja neinar vaxtalækkanir hjá Seðlabankanum næsta hálfa árið og að ríkið sér um að fjármagna sig á óhagstæðum kjörum.
Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri A/F rekstraraðila, benti á dögunum á þessa óhagstæðu fjármögnun ríkisins. Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist Valdimar telja að fjármögnunarkjör ríkisins færu hækkandi:
„Þetta vindur upp á sig með vöxtum og ég hef talað um þetta sem snjóboltavíxla. Maður veit ekki hvort Lánamál ríkisins séu að horfa til þess að salan á Íslandsbanka muni grynnka verulega á þessum ríkisvíxlastafla. Þar af leiðandi horfa þeir fram hjá því að vera að borga mikið fyrir þessa skammtímfjármögnun þar sem ríkið myndi grynnka á því með andvirði Íslandsbanka.“
Valdimar segir sívaxandi stafla ríkisvíxla þýða að ríkið verði að ganga hratt til verks þegar kemur að sölu á hlut sínum í Íslandsbanka. Í raun þarf ekki mikla þekkingu á fjármálum til að sjá hversu brýn sú sala er.
Þess vegna er það nánast óskiljanlegt að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra ætli að leggja fram nýtt frumvarp um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í söluna á þessum ársfjórðungi eða þeim næsta og í raun og veru eru ytri aðstæður sérstaklega hagstæðar til almenns útboðs. Það er ekkert sem kallar á frekari yfirlegu eða þá aðkomu þingsins til þess að hægt sé að ráðast í fyrirhugað útboð.
Hefði ekki slitnað upp úr stjórnarsamstarfinu fyrr í vetur hefði útboðið farið fram á þessum ársfjórðungi. Við það varð ekki ráðið. Hins vegar blasir við að frekari dráttur á útboðinu vegna þess að samþykkja þarf nýtt tilgangslaust frumvarp um söluna seinkar málinu að óþörfu og þar af leiðandi skapar það óheppilega og dýrkeypta óvissu á skuldabréfamörkuðum.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2022.