Flestir gera sér grein fyrir að stefna Donalds Trump Bandaríkjaforseta í tollamálum er skaðleg og hún er fyrst og fremst skattur sem neytendur vestanhafs koma til með að greiða. Enginn stígur fram og segir að tollarnir séu ekki skattur enda blasir við öllum að þeir hafa nákvæmlega sömu áhrif.

Það gera hins vegar margir þegar kemur að umræðum um boðaða hækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum. Þeir leggja sig fram við að útskýra fyrir almenningi að veiðigjöldin séu ekki skattur heldur afnotagjald. Gott og vel, en það breytir ekki þeirri staðreynd að gjaldið hefur nákvæmlega sömu áhrif á rekstrarákvarðanir fyrirtækja og aukin skattheimta. Um það verður ekki deilt.

Umræðan ætti því að snúast um hvaða efnahagslegu áhrif fyrirhuguð hækkun á veiðigjaldinu kemur til með að hafa – hvort þau séu líkleg til þess að auka verðmætasköpun í hagkerfinu og auka skatttekjur ríkissjóðs. Ríkisstjórnin hefur kosið að taka ekki þátt í því samtali enda virðist engin efnahagsleg greining liggja til hliðsjónar af stefnumótuninni í þessum efnum. Í raun minnir þetta á vinnubrögðin í Washington á dögunum þar sem tollaálagning var reiknuð út frá viðskiptahalla viðkomandi ríkja við Bandaríkin – aðferðafræði sem er algjörlega fjarstæðukennd út frá hagfræðilegum skilningi. Það að tengja veiðigjöld við norsku krónuna og heimsmarkaðsverð á olíu, svo dæmi sé tekið, er einnig fjarstæðukennt.

Hefðu tillögur Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra komið til framkvæmda árið 2009 hefði virk skattheimta sjávarútvegsins verið að meðaltali 80% á tímabilinu fram til ársins 2023. Það er útilokað að sú mikla fjárfesting sem hefur átt sér stað í veiðum og vinnslu á þessu tímabili hefði átt sér stað ef skattheimtan hefði verið með þessum hætti. Þar af leiðandi væri sjávarútvegurinn ekki að skila þeim verðmætum sem hann gerir í dag.

Það er þetta sem málið snýst um. Það er enginn grundvallarágreiningur um veiðigjöld sem slík. En þetta snýst um hvernig sé hægt að útfæra þau til að sjávarútvegurinn skili sem mestu til efnahagslífsins.

Tvöföldun veiðigjalda og vanhugsuð útfærsla á þeirri hækkun virðist vera lögð fram í einhverri geðshræringu sem hefur myndast yfir þeirri ímyndun að sjávarútvegsfyrirtæki séu að fjárfesta í óskyldum rekstri. Í fyrsta lagi verður ekki séð hvaða vandamál stafi af því að rekstur gangi kaupum og sölum í opnu markaðsskipulagi og í annan stað er ekki hægt að finna nein rök fyrir þessum fullyrðingum. Þegar litið er á gögn Frjálsrar verslunar um 500 stærstu fyrirtæki landsins sést að eigendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru ekkert sérstaklega fyrirferðarmiklir í öðrum atvinnugreinum þegar allt kemur til alls. Þeir fjárfesta fyrst og fremst í greininni.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, hefur tekið saman að fyrirtækið hefur fjárfest fyrir 80 milljarða í skipum, vinnslu og annarri uppbyggingu í greininni undanfarin áratug. Fjárfesting í „óskyldum rekstri“ er um 200 milljónir á tímabilinu og runnið fyrst og fremst til samfélagsverkefna.

Í dag er raunskattlagning sjávarútvegsins fjórtánföld á við veitustarfsemi, sem einnig nýtir eitthvað sem kallast sameiginleg auðlind, og greiðir þrefalt meiri en ferðaþjónusta og málmbræðsla greiðir. Þetta á að tvöfalda. Það blasir við að áform ríkisstjórnarinnar munu hafa neikvæð áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og reynast mikill skellur fyrir landsbyggðina. Þeir sem stýra sjávarútveginum hóta engu um að fiskvinnsla muni flytja úr landi verði áformin að veruleika – þeir eru einfaldlega að benda á rekstrarlegar staðreyndir. Ríkisstjórnin er ekki að hugsa um hagsmuni heildarinnar í þessu máli.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 9. apríl 2025.