Hrafnarnir héldu að Páll Gunnar Pálsson og majónessérfræðingarnir í Samkeppniseftirlitinu gætu ekki lengur komið þeim á óvart.
Það reyndist mikill misskilningur. Samkeppniseftirlitið féllst ekki á fyrirhuguð kaup Styrkás á félaginu Krafti þar sem eftirlitið sætti sig ekki við þær markaðsskilgreiningar sem lágu til grundvallar viðskiptunum. Málið snýst um að Styrkás er með umboðið fyrir Scania-trukka en Kraftur er þjónustuaðili MAN-trukkana hér á landi. Þetta telur SKE ógna samkeppnisumhverfinu hér á landi og skeytir engu um að sama fyrirtækið, Traton Group, á og framleiðir bæði Scania og MAN á heimsvísu. Samruni Scania og MAN var samþykktur af ESB árið 2006 og fram kemur í gögnum málsins að ekki er talið vera „samkeppnisleg nánd“ milli framleiðandanna tveggja hér á landi – það er viðskiptavinir Scania eru ekki líklegir til að skipta yfir í MAN og öfugt.
En þetta stöðvaði ekki Pál Gunnar og hans fólk. Má líkja þessu við að Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir að sami aðilinn framleiddi bæði Kók og Diet-Kók. Hrafnarnir brjóta nú heilann um hvað Samkeppniseftirlitinu gangi til og það eina sem kemur í hugann er að Páll Gunnar hafi horft á of margar Transformers-kvikmyndir og telji að Ásmundur Tryggvason forstjóri Styrkás hafi ekkert gott í hyggju.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. janúar.