Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var til útvarps á Sprengisandi Kristjáns Kristjánssonar á sunnudaginn. Þar ræddu þeir meðal annars horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti kastaði stríðshanskanum og hóf tollastríð sitt við umheiminn.
Gylfi sagði í þættinum að kólnunar gætti í hagkerfum heimsins og það gæti stefnt í kreppu vegna stefnu Trump í tolla- og efnahagsmálum. „Það þorir enginn að leggja í fjárfestingar til dæmis í að reisa verksmiðjur þegar það er algjörlega óljóst á hvaða forsendum reksturinn mun starfa,“ sagði Gylfi og hitti naglann á höfuðið.
Pólitísk óvissa og geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna sem ekki byggja á neinum greiningum eða gögnum á efnahagslegum afleiðingum eru ekki til þess fallnar að örva fjárfestingu og stuðla að hagvexti. Þetta á ekki síður við á Íslandi en í Bandaríkjunum.
Það er því undrunarefni að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sæki sér nú fyrirmyndir vestanhafs þegar kemur að stefnu stjórnarinnar í efnahagsmálum. Kristrún sagði á ársfundi SFS í fyrra að hún sæi fyrir sér að veiðigjöldin gætu hækkað um tíu milljarða næsta áratug. Í þessu felst fyrirsjáanleiki.
Stuttu eftir að ríkisstjórn Kristrúnar er tekin við eru kynnt áform um að veiðigjöldin verði umsvifalaust hækkuð um tíu milljarða með því að tengja verðið sem gjaldið er reiknað út frá við verð á íslenskum og norskum fiskmörkuðum. Aðferðarfræði sem embættismenn í Stjórnarráðinu vöruðu sérstaklega við í stjórnarmyndunarviðræðum og bentu á hið augljósa: Verð á íslenskum fiskmarkaði er einatt jaðarverð í hagfræðilegum skilningi og gæfi því ekki rétta mynd af verðmyndun í heild til stofns veiðigjalds. Bent var á sambærilega annmarka við að miða við verð uppsjávarafla á norskum uppboðsmarkaði eins og á að gera við uppsjávarfiskinn.
Á aðalfundi Ísfélagsins í síðustu viku lét Einar Sigurðsson, stjórnarformaður félagsins, eftirfarandi orð falla:
„Það er því mikilvægt að þeir sem starfa í stjórnmálum gangi ekki svo langt í sínum málflutningi að ekki sé hægt að staldra við og fara yfir raunverulegar staðreyndir og þau markmið sem lagt var upp með. Það hlýtur að kalla á eðlilegt samráð og samskipti. Þeir stjórnmálaflokkar sem ætla að halda trúverðugleika gagnvart landsbyggðinni hljóta að átta sig á þessu.“
Hægt er að taka undir hvert orð. Deilan snýst ekki um hækkun veiðigjaldsins í sjálfu sér heldur um þá staðreynd að útfærslan er svo illa unnin að hún kemur til með að hafa verulegar og neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag.
Sporin hræða. Ríkisstjórnin hefur nú boðað sértæka skatta á ferðaþjónustuna. Í áðurnefndum minnisblöðum var leiðtogum ríkisstjórnarinnar boðið upp á langan matseðil skattahækkana þegar kemur að ferðaþjónustunni. Fátt bendir til þess að ríkisstjórnin vandi til vinnubragða þegar kemur að útfærslu þessara hugmynda. Rétt eins og með fyrirhugaða breytingu á útreikningi á veiðigjaldinu mun það reynast landsmönnum öllum dýrkeypt.
Slík skattheimta myndi bitna hart á landsbyggðinni rétt eins og breytingin á veiðigjöldunum. Það á því eftir að koma í ljós hvort trúverðugleikinn gagnvart landsbyggðinni skipti ríkisstjórnina einhverju.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom 30. apríl 2025.