Nú hefur verið boðað til alþingiskosninga í lok næsta mánaðar. Flokkarnir eru því í óða önn að setja upp leiktjöldin og finna leikara með ærnum tilkostnaði. Mikilvægur þáttur í þeim sýningum sem eru framundan er að reyna að hafa stjórn á því um hvað verði kosið. Flokkarnir reyna auðvitað að tína til þau mál sem þeir telja henta þeim og reyna að láta kosningarnar snúast um þau. Vissulega verður talsverð umræða í kosningabaráttunni um heilbrigðismál, menntamál, orkumál og síðast en ekki síst um landamærin og hælisleitendamál, svo dæmi séu tekin. En þegar uppi er staðið munu þessar kosningar snúast um hvort kjósendur vilji stjórn til vinstri, einhvers konar Reykjavíkurlista eins og þekkist úr borgarstjórn eða borgaralega stjórn til hægri.
Stærstu áskoranir í nánustu framtíð
Stærstu áskoranir okkar næstu misserin, fyrir utan glímuna við vexti og verðbólgu, eru orkumál og stjórn landamæranna og skiptir þar hælisleitendakerfið mestu máli. Mjög mismunandi áherslur eru í þessum málum eftir því hvort horft er til vinstri eða hægri. Vilja kjósendur óbreytta stöðu í öflun grænnar orku og líta svo á að það sé ekki orkuskortur fyrirséður eða vilja þeir virkja meira og hraða orkuskiptum? Hver er vilji kjósenda í hælisleitendamálum og stjórnun landamæranna? Er það óbreytt ástand, afturhvarf til fyrra horfs eða hertar reglur í takti við regluverk annarra ríkja í Evrópu? Verða kosningarnar keppni í manngæsku á kostnað skattgreiðenda eða eru einhverjir tilbúnir að stíga niður fæti og gæta fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu að sumir flokkar reyni með heimatilbúnum skoðanakönnunum að telja okkur í trú um að kjósendur hafi lítinn sem engan áhuga á þessum málum.
Þrátt fyrir að vextir og verðbólga séu á niðurleið verða efnahagsmálin sennilega efst á blaði í kosningunum. Hverjum kjósendur treysta best til að stuðla að lækkun vaxta og verðbólgu munu þeir væntanlega svara í kosningunum. Ef þeir telja að vinstri stjórn sé best til þess fallin eru það nýmæli. Alla jafna eru aukin ríkisútgjöld með tilheyrandi skattahækkunum ekki til þess fallin að draga úr verðbólgu og stuðla þar með að lækkun vaxta, heldur þvert á móti.
Hvað er í boði fyrir kjósendur?
Nú stefnir í að tíu flokkar verði í boði fyrir kjósendur í næstu kosningum. Hugsanlega munu þeir allir fá kjörna fulltrúa og þeir sem ná því ekki alveg munu fá framfærslu frá skattgreiðendum allt kjörtímabilið. Þessi ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna mun leiða til þess að við erum meira og minna með eins manns og eins máls flokka með takmarkað flokkstarf og enga grasrót. Sumum finnst það lýðræðislegt en öðrum finnst þetta eins og hver önnur óreiða sem ómögulegt er að greiða úr. Kallar óhjákvæmilega á flóknar stjórnarmyndanir margra flokka og óbærilegar þjáningar við málamiðlanir. Í svona umhverfi er frjór jarðvegur fyrir tækifærissinna.
Fylgi smáflokkanna fer gjarnan upp í skoðanakönnunum þegar óánægjan kraumar undir í samfélaginu. Jafnvel þó að fáir eða enginn trúi því i raun að þessir flokkar geti bætt stöðuna eða gert eitthvað gagn yfirhöfuð. En þegar flugið er hátt í skoðanakönnunum og líklegt að árangur gæti náðst í kosningum verða ásýndarstjórnmálin mjög áberandi. Sumir flokkar keppast við að finna frægt fólk á lista, jafnvel í oddvitasæti, sem aldrei hefur tekið þátt í stjórnmálum og kjósendur hafa enga vitneskju um pólitíska hugmyndafræði eða sýn viðkomandi. Menn treysta á að frægðarljóminn selji. Hægt er að hafa skilning á því hjá smáflokkum sem hverfast gjarnan um einn mann, stofnandann, og er nánast einkafirma hans, en þegar rótgrónir flokkar stunda þetta, eins og Samfylkingin og Framsókn, er ástæða til að hafa áhyggjur af framtíð stjórnmálanna. Það er engin afsökun að tíminn sé knappur. Svo er það fáheyrt, ef ekki óþekkt, að þetta fræga fólk hafi sett mark sitt á stjórnmálin.
Höfundur er lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.