Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera krónu á móti. Þannig ráðstafar hið opinbera hvergi hærra hlutfalli af verðmætasköpuninni en á Íslandi, sé leiðrétt fyrir útgjöldum til lífeyris- og varnarmála. Það má hæglega færa rök fyrir því að við fáum minna fyrir síðarnefndu krónuna en þá fyrri og liggur skýringin í því hvernig henni var aflað.
Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera krónu á móti. Þannig ráðstafar hið opinbera hvergi hærra hlutfalli af verðmætasköpuninni en á Íslandi, sé leiðrétt fyrir útgjöldum til lífeyris- og varnarmála. Það má hæglega færa rök fyrir því að við fáum minna fyrir síðarnefndu krónuna en þá fyrri og liggur skýringin í því hvernig henni var aflað.
Hinn víðfrægi og færi hagfræðingur Milton Friedman sagði að til væru fjórar leiðir til að eyða peningum. Sú fyrsta er þegar þú eyðir eigin peningum í þig sjálfan. Önnur leiðin er þegar þú eyðir þínum peningum í aðra, t.d. þegar þú kaupir gjöf. Þriðja leiðin er þegar þú eyðir annarra manna fé í sjálfan þig. Sú fjórða er þegar þú eyðir annarra manna peningum í einhvern annan.
Fjármagn í skiptum fyrir stuðning
Fyrsta leiðin er best þar sem hvatinn er fyrir þig að fá sem mest virði fyrir hverja krónu. Sú fjórða er sú alversta að mati Friedmans og leiðir óumflýjanlega til sóunar. Það er vegna þess að þú veist ekki með hvaða hætti þriðji aðili vill að fjármunum sé ráðstafað. Einnig skortir hvata til að veita fjármununum með skilvirkum hætti. Hvort tveggja leiðir þannig óumflýjanlega til sóunar og endurspeglar einnig viðvarandi vanda opinberra fjármála.
Aukin umsvif hins opinbera eru innbyggð inn í stjórnkerfið sem við búum við. Stjórnmálamenn sem útdeila fjármunum úr sameiginlegum sjóðum hafa sterka hvata til að gera það í auknum mæli. Hvatarnir til að draga úr fjárútlátum eru aftur á móti mun veikari og mæta gjarnan andstöðu frá þeim sem þeirra njóta.
Ráðamenn eru þannig líklegri til að veita almannafé til þeirra sem greiða þeim atkvæði. Ávinningur þeirra sem þiggja slík framlög, eða njóta góðs af hvers konar aðgangshindrunum getur verið mikill en kostnaðurinn dreifist á alla skattgreiðendur. Þeir sem búa við slíka meðgjöf gefa hana ekki frá sér án andmæla.
Markaðsaðhaldið skortir
Á undanförnum áratugum hafa fjölmargar ríkisstofnanir fært út kvíarnar, aukið valdheimildir sínar og fjölgað starfsfólki. Til marks um vöxtinn hefur starfandi hjá hinu opinbera fjölgað tvöfalt hraðar en á almennum vinnumarkaði frá aldamótum. Annað nýlegt dæmi er þegar Skatturinn lagðist gegn rýmri stærðarmörkum örfélaga í lögum um ársreikninga. Skref sem hefði létt á reglubyrði en dregið úr valdheimildum stofnunarinnar. Vandi vaxandi umsvifa hrjáir þannig ekki síður stofnanakerfið en stjórnkerfið.
Viðstöðulaus vöxtur ríkisstofnana er ekki náttúrulögmál. Í dag eru stofnanirnar yfir 160 og veita margar hverjar mikilvæga þjónustu sem samfélagið þarf á að halda. Það er aftur á móti lágmarkskrafa að hún sé veitt með sem skilvirkustum hætti, en stofnanirnar eru þó ekki í stöðu til þess að gera það með sama hætti og í einkageiranum.
Markaðsfyrirkomulagið, sem einkageirinn býr við, skapar honum nauðsynlegt aðhald sem verðlaunar þá sem veita eftirsótt gæði með skilvirkum hætti en umbunar ekki fyrir glórulausar athafnir. Stofnanir geta aftur á móti haft áhrif á leikreglur og víkkað út hlutverk sitt án aðhalds markaðarins, sem að lokum verður fjármagnað með almannafé.
Krónur verða að milljörðum
Hvatamisræmið sem á sér stað þegar aðrir sýsla með annarra manna fé leiðir þannig til sóunar og kostnaðurinn er tvenns konar. Í fyrsta lagi skapar mikið umfang hins opinbera kostnað vegna umsýslu og takmarkana á athafnafrelsi einstaklinga. Í öðru lagi er kostnaðurinn fjármagnaður með sköttum sem hefði annars verið ráðstafað frjálsri hendi. Kostnaður krónunnar sem hið opinbera ráðstafar verður þannig fljótt talinn í milljörðum.
Lausnirnar leynast ekki á útgjaldahlið heldur í umbótum. Veita þarf þjónustu í auknum mæli á markaðsgrundvelli, þar sem einkaaðilar keppa sín á milli um að gera betur. Það þarf pólitískan kjark samhliða ákalli frá almenningi til að ráðast í þessar umbætur. Arfleið stjórnmálamanna sem skortir slíkan kjark, og mæla þess í stað velgengni sína í auknum útgjöldum, verður hærri skattar og skuldir. Það er ekki alltaf best að auka bara útgjöld.
Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs.