Á föstudag var efnt til aukafundar í atvinnuveganefnd til þess að ræða reikningsaðferðirnar við Skattinn, en sjálfur Snorri Olsen ríkisskattstjóri var gestur fundarins.
Vandinn var kannski sá að hann er ekki vel kunnugur reiknireglunum og því óvíst að fengist hafi svör við öllum spurningum. Hjá Skattinum eru ekki nema tveir starfsmenn sem kunna skil á þeim flóknu reiknikúnstum en þeir eru farnir í sumarfrí eins og megnið af stjórnsýslunni. Sem kannski er ástæðan fyrir því að Sigurjón Þórðarson, formaður atvinnuveganefndar, taldi óhætt að láta loks undan þrýstingnum og fá Skattinn á fund nefndarinnar til að ræða þetta lykilmál.
Það sem var þó óvæntast við fundinn var að Sigurjón greindi frá honum á Facebook og að Skatturinn væri sér sammála. Um þá túlkun kunna að vera skiptar skoðanir, en hitt er óþekkt að formaður þingnefndar rjúfi trúnað um störf hennar sisona og segi það sem honum hentar í trausti þess að aðrir haldi trúnaðinn.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.