Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, vill breyta lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Þetta kom fram í viðtali við hana á Bylgjunni í síðustu viku. Hún segir að stjórnvöld hafi gengið of langt við innleiðingu reglnanna.

***

Sagði hún ekki farir sínar sléttar. Samkvæmt reglunum er Hanna Katrín sett á lista yfir fólk með stjórnmálaleg tengsl. Þetta hefur valdið henni og maka hennar miklum vandræðum að ekki sé minnst á börnin. Þannig kemur fram í viðtalinu að hún og börn hennar hafi átt í vandræðum með að taka út reiðufé í bönkum. Hanna, sem er gamall Valsari, situr í stjórn Hlíðarenda og þar með eru aðrir stjórnarmenn komnir á lista yfir fólk með stjórnmálatengsl þeim til vandræða og leiðinda. Eiginkona Hönnu þurfti að segja sig úr stjórn hljómsveitarinnar Úkulellurnar vegna þessa.

Það er gott hjá Hönnu að vekja athygli á þessu. Rétt eins og með fjölda annarra evrópskra reglna og gerða hafa þær verið innleiddar með alltof ströngum hætti í íslenskan rétt. Þetta er það sem kallað er gullhúðun og er orðið að umtalsverðu vandamáli hér á landi. Embættismennirnir sem skrifa frumvörpin um Evrópureglurnar sem þarf að innleiða velta ekki fyrir sér hvernig þær eiga við hér á landi og útfæra flest með strangasta hætti. Þingmenn horfa á þetta aðgerðalitlir og ekki er hlustað á augljósar ábendingar hagsmunaaðila þegar frumvörpin eru í meðferð þingnefnda.

En það er ekki nógu gott ef stjórnmálamenn vakna aðeins upp við vondan draum þegar áhrif þeirra gerða bitna loks á eigin skinni. Týr leggur til að þeir eigi samtal við fulltrúa hinna fjöldamörgu atvinnustétta sem líða fyrir með hvaða hætti evrópskar tilskipanir hafa verið innleiddar hér á landi meðal annars með þeim afleiðingum að þær valda neytendum kostnaði og almennum leiðindum.

***

Stjórnmálamenn ættu einnig að ræða þessi mál við embættismenn í stjórnkerfinu sem bera mikla ábyrgð á að evrópska regluverkið er ekki húðað með gulli hér á landi heldur blýi.Vonandi verður sú umræða að þingmenn sperri eyrun þegar fulltrúar atvinnulífsins benda á hætturnar þegar þingnefndir fjalla um innleiðingar og hægt verði að hefjast handa við að vinda ofan af þessari vondu og tilgangslausu þróun undanfarinna áratuga.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. janúar 2024.