Aðalfundur Isavia var haldinn í vikunni. Á honum flutti Orri Hauksson lokaræðu sína sem stjórnarformaður félagsins því hann er nú hættur. Ræðan fór vægt til orða tekið öfugt ofan í suma og þá sérstaklega þegar hann sagði að starfsemin á Keflavíkurflugvelli ætti ekki að greiða niður uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni, sem stæðu ekki undir sér fjárhagslega.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hins nýja flugfélag Niceair á Akureyri, sendi Orra tóninn í færslu á Facebook. „Í ávarpi fráfarandi stjórnarformanns Isavia var margt upplýsandi og fátt jákvætt. Eiginlega það eina jákvæða er að hann sé fráfarandi,“ sagði Þorvaldur Lúðvík og bætti við að frískandi væri „að fá svona heiðarlega staðfestingu á and - byggðarlegri uppbyggingu ríkisinnviða, en téður fráfarandi mandarín , hefur skákað í skjóli pólitískra embættisveitinga á kostnað okkar landsmanna frá því hann komst til vits og ára og undir hlýjan pilsfald flokksins.“

Kannski það birti til hjá Þorvaldi Lúðvík fyrir norðan því Kristján Þór Júlíusson, sem var jú bæjarstjóri á Akureyri um árabil, er nú orðin stjórnarformaður Isavia .


Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .