Á síðasta ári urðu vatnaskil í útflutningstekjum þjóðarinnar eftir mikinn samdrátt árið áður. Útflutningur jókst um rúmlega 20% frá árinu 2020 og nam ríflega 1.230 milljörðum króna. Aukninguna má meðal annars rekja til hækkana á álverði og endurkomu ferðaþjónustunnar. Þá er ánægjulegt að sjá að íslenskur hugverkaiðnaður vex ár frá ári og er orðin raunveruleg fjórða stoðin í útflutningstekjum landsins.

Það leikur enginn vafi á því að margvíslegar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum haf a stutt við þann vöxt. Það er líka gleðiefni að sjá útflutningstekjur vegna sjávarafurða vaxa enn frekar. Greinin tókst á við áskoranir kórónuvírusfaraldursins af útsjónarsemi og krafti og hefur jafnharðan fundið nýjar dreifileiðir þegar hefðbundnir markaðir lokuðust. Það stefnir í metár í komu erlendra kvikmyndaverkefna til landsins, en miðað við vilyrði sem þegar liggja fyrir um endurgreiðslu má gera ráð fyrir að tekjur vegna kvikmyndaverkefna verði um 16 milljarðar á næsta ári.

Þegar við horfum til okkar mikilvægustu útflutningsgreina getum við verið bjartsýn á framtíðina. Við búum vel og höfum alla burði til þess að halda áfram að byggja upp framúrskarandi samfélag á grundvelli sjálfbærrar verðmætasköpunar með lífsgæði að leiðarljósi.

Íslandsstofa starfar náið með utanríkisþjónustunni í því skyni að styðja íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum. Á þessu ári hóf Íslandsstofa samstarf við Business Sweden sem er systurfyrirtæki okkar í Svíþjóð. Með samstarfinu opnast nýir möguleikar til að veita íslenskum fyrirtækjum þjónustu á erlendum mörkuðum. Unnið er að þróun þjónustunnar og er sérstaklega horft til vaxtarfyrirtækja á sviði hugvits og tækni og hafa þegar verið gerðir samstarfssamningar við íslensk fyrirtæki um verkefni í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

Þá er jafnframt unnið að því að styrkja enn frekar viðskiptatengslin í gegnum erlendu sendiráðin og til marks um það var nýverið opnað sendiráð í Póllandi þar sem við sjáum mikil tækifæri. Áskoranir undanfarinna ára hafa sýnt okkur hversu mikilvægt það er að geta stundað frjáls viðskipti milli landa. Þar stöndum við Íslendingar vel, með víðtækt net viðskiptasamninga um allan heim.

Látum gott af okkur leiða

Útflutningstekjur eru grunnurinn að hagsæld og velferð á Íslandi. Þótt auðlindir landsins séu ekki fjölbreyttar þá eru þær ríkulegar og með skynsamlegri nýtingu þeirra höfum við byggt hér samfélag sem er með því besta sem þekkist í heiminum. Það er mikilvægt við mat á framtíðartækifærum okkar til útflutnings að hafa í huga tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á heimsmyndina.

Við mótun útflutningsstefnu Íslands árið 2018 voru fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs sammála um að sjálfbærni yrði að vera sú framtíðarsýn sem íslenskur útflutningur stefndi að. Þessi sýn þarf að vera okkur leiðarljós við leit að frekari tækifærum til að byggja upp útflutningsgreinar og við markaðssetningu á Íslandi sem útflutningslandi.

Síðastliðin tvö ár hafa minnt okkur óþyrmilega á það hvernig utanaðkomandi atburðir, sem við höfum ekki stjórn á, geta haft áhrif á þjóðarbúskapinn. Nú þegar kórónufaraldurinn er að mestu að baki stendur yfir stríð í Evrópu. Áhrif þess eru víðtæk og fjarri því að vera öll komin fram. Birtingarmyndir eru m.a. viðskiptaþvinganir, hækkun hrávöruverðs og áframhaldandi röskun í aðfangakeðjum.

Þessi áhrif koma víða fram og Ísland er þar ekki undanskilið. Þegar við tökumst á við slíkar áskoranir skiptir órofa samstaða öllu máli. Við Íslendingar getum verið stolt af því að vera í hópi þeirra lýðræðisríkja sem standa með Úkraínu og standa gegn stríðinu með beinni aðkomu að viðskiptaþvingunum.

Fáir þekkja það betur en Íslendingar að það gengur á með éljum. Þegar birtir yfir í vestri, hlaðast upp óveðursský í austri. Þrátt fyrir öfluga viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn stöndum við enn frammi fyrir nýjum áskorunum í útflutningi. Við megum ekki tapa augastað á þeim grundvallargildum sem mótað hafa samfélag okkar.

Í hinu stóra samhengi þá eru virðing fyrir náttúru, lýðræði, mannréttindum og friði það verðmætasta sem Íslendingar geta flutt út til annarra þjóða. Megi nýja árið færa ykkur farsæld og frið.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.