Við lifum enn á olíuöldinni hvað sem þeim markmiðum sem þjóðir heimsins hafa sett sér í loftslagsmálum líður.

Eldur Ólafsson, forstjóri gullleitar og -graftrar fyrirtækisins Amaroq Minerals á Grænlandi, benti á í afar fróðlegu viðtali í Silfrinu á sunnudaginn að enn væri 84% af orkunotkun heimsins fullnægt með olíu, gasi og kolum. Vistvænir orkugjafar á borð við vatnsafl, jarðvarma, vind-, sól- og kjarnorku standi ekki undir nema tæplega 16% af orkunotkun heimsins.

Eldur benti á að megnið af olíu, gasi og kolum sem heimurinn nýtir kæmi frá ríkjum sem viðhafi ólýðræðislegt stjórnarfar. Vesturlönd hafi dregið úr fjárfestingu í vinnslu jarðefnaeldsneytis í nafni umhverfisverndar á síðustu árum þrátt fyrir að vera jafn háð þeim orkugjöfum og áður.

Undir þetta má taka með Eldi. Einræðisherrum og harðstjórum hefur verið eftirlátin orkuframleiðsla sem aukið hefur á völd þeirra. Ríkin á Arabíuskaganum, Íran og fleiri komast upp með skelfileg mannréttindabrot í krafti olíuauðsins. Valdimír Pútín Rússlandsforseti var vel meðvitaður um hve Evrópa var háð rússneskri orku þegar hann tók ákvörðun um innrásina í Úkraínu.

Einn angi af því máli er sú aðferðafræði eignastýringarfyrirtækja að horfa í auknum mæli á svokölluð ESG-gildi í fjárfestingum. Þar er átt við að horft sé til umhverfis-, samfélagsmála og stjórnarhátta við val á fjárfestingakostum. Sem liður í þeirri vegferð hafa þekkt eignastýringafyrirtæki sem og einhverjir íslenskir lífeyrissjóðir lokað á fjárfestingu í fyrirtækjum sem vinna jarðefnaeldsneyti. Nú eru að renna tvær grímur á marga um ágæti þeirrar aðferðafræði.

Orkukreppan í Evrópu bitnar til að mynda á lífskjörum og kemur verst niður á viðkvæmustu hópunum sem samræmist varla markmiðum um samfélagslega ábyrgð. Siðfræðileg álitaefni eru flóknari en svo að hægt sé að reikna sig niður á eina rétta niðurstöðu.

Þó að heppilegast væri að kippa fótunum undan harðstjórum olíuframleiðsluríkjanna með því að skipta yfir í endurnýjanlega orku verður það ekki gert á einni nóttu. Til þess þarf gífurlegar fjárfestingar í tækni, málmvinnslu, innviðum og nýjum virkjunum.

Í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnun gaf út á síðasta ári um hvernig heimurinn geti komist að kolefnishlutleysi árið 2050, er áætlað að helmingur af samdrætti í losun þurfi að koma til með tækni sem enn er ekki komin á markað. Á meðan við búum ekki yfir þeirri tækni er ekki hægt að lifa í þeirri barnslegu trú að með því að banna olíuleit, líkt og Íslendingar hafa m.a. gert, sé vandinn úr sögunni.

Augljósasta framlag Íslands á þessu sviði er í formi aukinnar framleiðslu á endunýtanlegri orku. Að ætla að leggja bílnum, hætta að borða kjöt, fara sjaldnar til útlanda dugar nefnilega ekki til, þó það sé góðra gjalda vert. Alþjóðaorkumálastofnunin áætlar að breytingin á hegðunarmynstri, einkum Vesturlandabúa standi að líkindum ekki undir nema 4% af leiðinni að kolefnishlutleysi til 2050. Orkuskiptin og tækniframfarir skipti meginmáli.

Þar er æði margt í biðstöðu. Stjórnvöld hafa enn ekki ákveðið hvernig fyrirkomulag eigi að vera á vindorkunni þótt það hafi verið á þeirra borði um árabil, rammaáætlun festir virkjanakosti í biðstöðu í fleiri ár og ýmis verkefni eru föst fyrir kærunefndum og dómstólum um árabil.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur að undanförnu ítrekað bent á að engin orka sé á lausu hér á landi til að standa undir skuldbindingum Íslendinga í loftslagsmálum og standa undir orkuskiptum og hvað þá að ætla að flytja út orku, hvort sem það er beint eða óbeint.

Íslendingar hljóta að bera ábyrgð eins og aðrir á að harðstjórar heimsins ráði ekki för þegar kemur að þeirri vöru sem stendur undir lífsgæðum heimsins, orkunni.