Það er eitt mesta gæfuspor íslensku þjóðarinnar að hafa sett á laggirnar lífeyrissjóðskerfi í formi sjóðasöfnunar.
Okkur hefur jafnframt tekist að hrófla ekki við því kerfi, í meginatriðum, þótt oft hafi gefið verulega á bátinn hérlendis í efnahagsmálum. Í nýlegri umræðuskýrslu Seðlabanka Íslands um lífeyriskerfið kemur m.a. fram að eignir lífeyrissjóðanna hafi u.þ.b. tífaldast frá síðustu aldamótum og myndu eignir almennings í gegnum lífeyrissjóðskerfið duga vel til að kaupa öll skráð hlutabréf og skuldabréf hérlendis og eiga um 1.700 milljarða til annarra fjárfestinga.
Kerfið er talið það annað besta í heimi samkvæmt alþjóðlegum samanburði og er þessi staða því öfundsverð fyrir margar þjóðir.
Lífeyriskerfið er þó ekki fullkomið og verður að þróa áfram með það að markmiði að auka gæði þess enn frekar.
Frumvarp um fjárfestingakosti viðbótalíefyrissparnaðar sem ég lagði fram sl. vor en gat því miður ekki fylgt eftir og klárað, felur í sér heimild til að gera fólki kleift að ráða meira yfir eigin sparnaði og auka þannig valfrelsi fólks um það hvernig iðgjöldum þeirra til séreignar er varið. Þetta þýðir að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilt að bjóða eigendum séreignarinnar, almennu launafólki, að hafa meiri stjórn en áður yfir ráðstöfun eigin sparnaðar.
Fólki væri þá heimilt að fjárfesta séreignarsparnaði í verðbréfasjóðum og öðrum slíkum fjármálaafurðum sem ætlaðar eru almennum fjárfestum. Aðeins yrði um heimild að ræða og ekki stendur til að sambærilegt myndi gilda um samtryggingarhluta lífeyriskerfisins, enda allt annars eðlis og sett á fót í öðrum tilgangi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að klára þetta mál.
Það er grundvallaratriði í allri löggjöf að það þurfi að vera sterk rök fyrir því að einstaklingum sé óheimilaðar ákvarðanir sem aðeins varða þá sjálfa. Í þessu tilfelli er einfaldlega verið að leyfa einstaklingum að ráða frekar yfir eignum sem þeir sjálfir einir eiga tilkall til. Það ætti í raun að segja sig sjálft að slík heimild, sé sjálfsögð.
Fyrir utan einföld rök um eignarrétt er sennilegt að aukin dreifstýring sparnaðar geti bætt skilvirkni fjármálamarkaðar. Lífeyrissjóðir hafa vaxið mun hraðar en hagkerfið um árabil og voru eignir þeirra samtals um 184% af landsframleiðslu um síðustu áramót og mun líklega hækka á næstu árum. Það er aukin einsleitni í stýringu fjármagns en með auknu valfrelsi skapast forsendur fyrir meiri dreifstýringu sem er til þess fallin að auka skilvirkni og samkeppni á fjármálamarkaði.
Það er nefnilega í þessum efnum eins og öðrum, þekkingin er dreifð um samfélagið. Með því gæti t.d. verðmyndun orðið skilvirkari sökum meiri seljanleika og telja má að með aukinni samkeppni aukist líkur á að fjármagni sé ráðstafað í fjárfestingar á skilvirkan hátt.
Styrkja þarf umgjörðina
Nýútkomin skýrsla Seðlabanka Íslands varpar ljósi á ýmsa þætti sem þarf að endurskoða. Þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn einnig vakið athygli á því að styrkja þurfi umgjörð lífeyrissjóða.
Fyrir lítið markaðshagkerfi með eigin gjaldmiðlið og stóra lífeyrissjóði skiptir alþjóðleg samkeppnishæfni miklu máli hvar útflutningsdrifið atvinnulíf sækir sér tekjur á dreifða erlenda markaði og styrkir gjaldeyrismarkaðinn.
En vegna þess hversu stórir lífeyrissjóðirnir eru orðnir skiptir regluverk lífeyrissjóða landsins gríðarlegu máli. Regluverkið er stíft og það hefur leitt til þess að sjóðirnir virðast nokkuð einsleitir í innlendum fjárfestingum og áherslum. Frá mínum bæjardyrum séð virðast flestir sjóðirnir hreyfa sig nokkuð í takt og setja á oddinn sambærilegar áherslur í rekstri stærstu fyrirtækja landsins í Kauphöllinni. Lífeyrissjóðirnir þurfa meira svigrúm til að taka eigin ákvarðanir. Sjóðsfélagar eiga að hafa meira svigrúm til að velja sér sjóð eftir áherslum viðkomandi sjóðs. Þetta á að vera sjálfsagt frelsi launafólks sem á þennan sparnað. Hvort tveggja myndi stuðla að virkari markaði, aukinni valddreifingu, meiri samkeppni og heilbrigðara umhverfi.
Þess vegna talar Sjálfstæðisflokkurinn fyrir auknu valfrelsi og heilbrigðri samkeppni, á öllum sviðum.
Mikilvægi erlendra fjárfestinga
Erlend fjárfesting er forsenda þess að sjóðsöfnunarkerfi geti náð tilætluðum árangri og tryggt hagsmuni fjölmennra kynslóða án þess að það valdi óæskilegum ruðningsáhrifum á innlendum fjármálamarkaði og mögulegri eignabólu. Þess vegna væri til bóta að koma upp öflugri afleiðumarkaði með gjaldeyri hérlendis þannig að innlendir aðilar gætu betur stýrt gjaldeyrisáhættu sinni til lengri tíma. Að þessu eigum við að stefna.
Höfundur er utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.