Íslenska hagkerfið hefur stækkað um fimmtung síðustu þrjú ár. Þessum mikla vexti hefur eðli málsins samkvæmt fylgt mikill vöxtur í skatttekjum ríkisins.

Íslenska hagkerfið hefur stækkað um fimmtung síðustu þrjú ár. Þessum mikla vexti hefur eðli málsins samkvæmt fylgt mikill vöxtur í skatttekjum ríkisins.

Þannig hefur Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra metið að þessi „óvænti afkomubati“ nemi í kringum 300 milljörðum króna á tímabilinu.

Illu heilli hefur afkomubatinn ekki verið nýttur til þess að greiða niður skuldir eða þá að lækka skatta á heimili og fyrirtæki. Þess í stað hefur bensíngjöfin verið stigin í botn og ríkisútgjöldin aukin enn frekar.

Öllum má vera ljóst að stjórnvöld geta ekki reitt sig á óvæntan afkomubata á næstu árum. Miklar áskoranir í ríkisrekstrinum eru fyrirsjáanlegar. Engum sem hlýddi á Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra á kynningarfundinum um óvænta vaxtaákvörðun bankans í síðustu viku dylst að umsvifin í hagkerfinu fara hratt minnkandi og það mun hafa áhrif á skattheimtu ríkissjóðs.

Flestir gera sér því grein fyrir að aðhalds sé þörf í ríkisfjármálum. Útgjaldaaukningin í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið stjórnlaus og hinu opinbera hefur verið leyft að hlaupa í spik að óþörfu. Þessum útgjöldum hefur ekki verið varið í fjárfestingu á mikilvægum opinberum innviðum þrátt fyrir mikla þörf heldur í stöðugan vöxt stjórnsýslunnar með fjölgun opinberra starfa.

Velta má fyrir sér hvort ástæðuna fyrir fylgisleysi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum megi rekja til þessa. Flokkurinn hefur farið með ríkisfjármálin stærstan hluta kjörtímabilsins og ber því ábyrgð á þessari óábyrgu stefnu.

Fleira kemur til. Ekki verður séð að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi beitt sér sérstaklega fyrir hefðbundnum áherslum flokksins í valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Auk ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum hverfast þær um sanngjarna skattheimtu, atvinnufrelsi, að stjórnmálamenn virði almenn lög og reglur í stað þess að skipta sér beint af framgangi einstakra mála og að almenningur fái almennt að vera í friði fyrir
ríkisvaldinu.

Þorri landsmanna er í stórum dráttum sammála þessum áherslum en það endurspeglast ekki í fylgi Sjálfstæðisflokksins. Fyrir því eru augljósar ástæður.

Ríkisstjórnin hækkaði meðal annars skatta á fyrirtæki og fasteignaeigendur og í stað þess að nýta „óvænta afkomubatann“ til þess að takast á við ófyrirséð útgjöld á borð við þau er falla til vegna ástandsins í Grindavík var lagður á sérstakur skattur til að standa straum af þeim. Skattur á fjármagnstekjur var hækkaður við upphaf kjörtímabilsins. Ítrekað hafa þingmenn og ráðherrar flokksins horft upp á ráðherra Vinstri grænna troða á stjórnarskrárbundnu atvinnufrelsi og látið hefur verið undan þrýstingi og hlutast til um mál sem höfðu fengið eðlilega efnismeðferð í embættiskerfinu.

Afrekin eru ekki merkilegri en aðgerðarleysið. Guðrún Hafsteinsdóttir hefur nú lagt fram frumvarp um netsölu einkafyrirtækja á áfengi. Í stað þess að leggja fram eðlilegt frumvarp í anda viðskiptafrelsis er troðið í það undarlegum ákvæðum um að ekki megi stunda netverslun með áfengi á helgidögum. Vafalaust fagnar biskup Íslands þessari útfærslu en fáir aðrir. Þetta er eins og ríkið myndi banna erlendum efnisveitum að streyma hér á landi á fimmtudögum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð utanríkisráðherra hefur nú boðað að Ísland sækist eftir sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Því fagna embættismenn í
utanríkisráðuneytinu en varla skattgreiðendur. Aðrir ráðherrar flokksins hafa beitt sér fyrir að ríkið greiði fyrir háskólagjöld fyrir fullorðið fólk og að það niðurgreiði rafbílakaup stöndugra bílaleigufyrirtækja svo einhver dæmi séu tekin.

Kjósendur vita að stjórnarsamstarf kallar á málamiðlanir. Grundvöllur slíks er að allir fái einhverjum af sínum áhugamálum hrint í framkvæmd. Augljóst er af könnunum að dæma að stór hluti kjósenda hefur lítinn áhuga á þeim málum sem eru nefnd hér fyrir ofan.

Í því felast brýn skilaboð til Sjálfstæðisflokksins sem nauðsynlegt er að bregðast við með öðrum hætti en að benda á þá staðreynd að aðrir valkostir séu verri.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 9. október 2024.