Á síðustu árum hefur umhverfi englafjárfestinga á Íslandi tekið stakkaskiptum. Fyrir ekki svo mörgum árum var lítið um að frumkvöðlar leituðu eftir fjármagni á þessum fyrstu stigum og styrkjaumhverfið var það eina sem hjálpaði öflugum frumkvöðlum af stað, en nú sjáum við uppgang sprotafyrirtækja sem njóta stuðnings frá fjárfestum með áhuga á nýsköpun. Þessi jákvæða þróun er hluti af stærra nýsköpunarumhverfi sem gerir Íslandi kleift að standa sterkt í alþjóðlegri samkeppni.

Nordic Ignite hefur verið í fararbroddi þessara breytinga á englafjárfestingastiginu og við erum stolt af því að hafa tekið þátt í að skapa tækifæri fyrir frumkvöðla með því að stofna sjóð sem byggir á þátttöku 79 aðila undanfarin tvö ár. Það sem gerir okkur stolt er að þetta eru engir venjulegir hluthafar – hér er um að ræða jafnt hlutfall karla og kvenna, fólk sem starfar í stjórnendastöðum víðs vegar í atvinnulífinu. Hluthafarnir í sjóðnum hafa skilning á mikilvægi nýsköpunar og eru tilbúnir að styðja við íslensk og norræn sprotafyrirtæki á þessum upphafsskrefum.

Þegar við stofnuðum Nordic Ignite var lítið um fjárfestingar á þessu allra fyrsta fjármögnunarstigi hérlendis, en nú er komið meira líf í englafjárfestingar, fleiri hafa skilning á hlutverkinu og nýverið voru stofnuð samtök englafjárfesta IceBAN (Icelandic Business Angel Network) sem hafa það markmið að skapa öflugt og faglegt tengslanet milli englafjárfesta til að greiða fyrir og auðvelda englafjárfestingar í óskráðum fyrirtækjum. IceBAN gegnir að auki mikilvægu fræðsluhlutverki fyrir englafjárfesta. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi því nú hafa þau fleiri valmöguleika til að fá fyrstu fjármögnunina og skapa grundvöll fyrir frekari vöxt.

Okkar skoðun er sú að því fleiri sem taka þátt í englafjárfestingum, því betra. Með auknum fjölda fjárfesta eru meiri líkur á að fleiri sprotafyrirtæki komist á legg. Sérstaklega mikilvægt er að konur sjái það sem tækifæri að taka þátt í englafjárfestingum, því þannig fá þær innsýn inn í sprotafyrirtækin sem aðallega karlar hafa haft hingað til. Fjölbreyttari fjárfestar skila fjölbreyttari lausnum.

Fjárfesting á fyrsta stigi þarf að vinna af kostgæfni. Það er til dæmis lykilatriði að englafjárfestar taki ekki of stóran hlut í sprotafyrirtækjum á þessu fyrsta stigi. Stofnendur þurfa að halda meirihluta sínum eins lengi og hægt er, til að skapa rými fyrir frekari fjárfestingu, hvort sem það eru vísifjárfestar eða aðrir aðilar sem vilja koma inn á næsta stigi. Þetta tryggir að frumkvöðlarnir sjálfir stýri þróun fyrirtækisins með fullum eldmóði og geti byggt fyrirtækið upp með sinni eigin framtíðarsýn.

Eitt af því sem við hjá Nordic Ignite höfum tekið eftir er að hin Norðurlöndin hafa hvata sem mætti skoða nánar hér á landi. Til dæmis eru í flestum öðrum Norðurlöndum kerfi þar sem hið opinbera fjármagnar helming á móti einkafjárfestum á þessu fyrsta fjármögnunarstigi. Nýsköpunarsjóður gerði tilraun í þessa átt á síðasta ári sem var virkilega vel heppnuð og vonumst við til að verði framhald á. Þetta er ein af þeim leiðum sem við getum nýtt til að koma íslenskum sprotafyrirtækjum upp úr hinum svokallaða „dauðadal“, þ.e. því tímabili þegar fyrirtæki eru komin af stað en þurfa meira fjármagn til að vaxa.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að styðja við sprotafyrirtæki og taka þátt í fjárfestingum sem snúast um nýsköpun er mikilvægt að skoða þá möguleika sem eru í boði í dag. Þátttaka í eignasafni sem hefur nýsköpun og vöxt að leiðarljósi getur verið lykillinn að árangri – bæði fyrir fjárfesta og frumkvöðla.

Við hjá Nordic Ignite trúum því að með því að leggja áherslu á að næra þetta fyrsta stig fjármögnunar sprotafyrirtækja, séum við að hjálpa til við að leggja grunn að enn öflugra nýsköpunarumhverfi. Við ætlum okkur áframhaldandi þátttöku í þessari þróun og erum vongóð um að enn fleiri fjárfestar og sjóðir munu bætast í hópinn og að enn fleiri sprotafyrirtæki munu því eiga möguleika á að vaxa og dafna.

Hvað er englafjárfestir?

Englafjárfestir er einstaklingur sem veitir fjármagn til sprotafyrirtækja á fyrstu stigum, oftast í skiptum fyrir hlutafé. Þessir fjárfestar eru oft reynslumiklir í viðskiptalífinu og geta auk fjármagnsins veitt mikilvægan stuðning, ráðgjöf, og tengslanet til að hjálpa fyrirtækjunum að vaxa. Englafjárfestingar eru áhættusamar, en geta skilað miklum ávinningi ef fyrirtækið nær árangri.

Höfundur er stjórnarformaður Nordic Ignite.