Vaxtakostnaður fyrirtækja í OMXI10 hefur aukist mikið eftir að hafa náð lágmarki í lok árs 2020. Reiknaðir vextir fyrirtækjanna miðað við vægi vísitölunnar hafa hækkað úr 1,4% í 6,2% á ársgrundvelli samkvæmt KODIAK. Fyrirtækin þurfa nú að horfast í augu við mun hærri vexti en tímabilið fyrir upphaf vaxtalækkunarferlis peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands vorið 2019. Munurinn jaðrar við að vera tvöfaldur.

Seðlabanka Íslands er ekki einum um að kenna þar sem erlendir vextir hafa sömuleiðis farið hækkandi. Helmingur fyrirtækjanna í OMXI10 starfrækja aðallega útflutning í erlendum gjaldmiðli og hafa þau ekki farið varhluta af hækkuninni erlendis. Myndin sýnir annars vegar hlutfall vaxtakostnaðar af vaxtaberandi skuldum og hins vegar ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa í íslenskum krónum, evrum og bandaríkjadollar, vegin saman með vægi uppgjörsgjaldmiðla fyrirtækjanna í OMXI10. Ástæðan fyrir þessum samanburði er að vaxtakjör fyrirtækja miðast við vaxtaálag ofan á ríkistryggða vexti. Árið 2018 voru ríkistryggðir vextir í evrum að jafnaði um 0,5% en voru í nóvember og desember síðastliðnum um 2,5%. Þróunin í bandaríkjadollar er álíka eða 2,9% árið 2018 á móti 4,4% undanfarna tvo mánuði. Vextir í íslenskum krónum eru afgerandi hærri um þessar mundir eða um 7,3% í nóvember og desember samanborið við 4,1% árið 2018.

Heimild: KODIAK, Nasdaq Iceland og Bloomberg.

Hvernig hefur fyrirtækjum Úrvalsvísitölunnar tekist að mæta auknum fjármögnunarkostnaði? Rekstrarafgangur fyrir afskriftir fastafjármuna, fjármagnsliði og skatta lýsir getu þeirra til að mæta vaxtagjöldum. Árin fyrir lækkun meginvaxta Seðlabankans í maí 2019 var rekstrarhagnaður þeirra að jafnaði um 6 sinnum meiri en vaxtagjöld. Þetta hlutfall vænkaðist svo mjög á árum farsóttarinnar þegar peningamálayfirvöld beggja vegna Atlantsála lækkuðu stýrivexti en í kjölfar vaxtahækkana undanfarin tvö ár hefur hlutfallið lækkað. Hagnaðurinn á þriðja ársfjórðungi var eingöngu tæplega þrefalt hærri en vaxtagjöld og hefur hlutfallið ekki mælst lægra síðustu sex ár.

Þau fyrirtæki Úrvalsvísitölunnar sem hafa útflutning sem aðalstarfsemi hafa átt undir högg að sækja hvað þetta hlutfall varðar sem mögulega má rekja til þess að þau eru í erlendri samkeppnisstarfsemi. Þau eiga því erfiðara um vik að auka rekstrarframlegð til að mæta hærri vöxtum. Hlutfall rekstrarhagnaðar á móti vaxtagjöldum hefur aftur á móti verið mun jafnara þrátt fyrir hærri vexti hjá þeim fyrirtækjum OMXI10 sem stunda að mestu innlenda starfsemi. Lesandi þekkir þó að bankar skipa megnið af þessum fyrirtækjum.

Í ágúst var hér fjallað um vísbendingar um að vextir til lengri tíma taki mið að verðbólgvæntingum til of skamms tíma. Nýlegar þjóðhagsspár gefa tilefni til að vænta hjöðnun verðbólgu. Eitt af þeim umbótatækifærum sem stendur stjórnsýslunni fyrir þrifum er að auka skilvirkni innlends gjaldeyrismarkaðar sem eykur svigrúm til styrkingar krónunnar, dregur úr verðbólguvæntingum og lækkar vexti. Verði þær umbætur að veruleika má gera ráð fyrir að hlutfall rekstrarhagnaðar á móti vaxtagjöldum hækki á ný.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.