Það er áhyggjuefni þegar eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hefur hagfræðimenntun lýsir því opinberlega yfir að ekkert samband sé á milli þróunar ríkisútgjalda og verðlags. Það gerði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra í dægurmálaþættinum Spursmáli sem sýndur var á vef Morgunblaðsins fyrr í sumar.

Staðreynd málsins er að mikil tengsl eru á milli ríkisútgjalda og verðlags. Þannig hefur gegndarlaus útgjaldaaukning stjórnvalda á síðustu árum leitt til meiri verðbólgu og hærra vaxtastigs.

Ruðningsáhrif þessarar óábyrgu stefnu í ríkisfjármálum eru að koma skýrt fram um þessar mundir. Ríkið, sem kom markaðnum í opna skjöldu fyrir nokkrum vikum þegar skuldabréfaútgáfuáætlun ársins var stækkuð um þrjátíu milljarða, er að soga til sín laust fé í kerfinu. Ekki er hægt að búast við kröftugum viðsnúningi á hlutabréfamarkaðnum eða heilbrigðum vexti atvinnuvegafjárfestingar meðan á þessu ástandi varir.

Eins og haft var eftir Þórði Pálssyni, forstöðumanni fjárfestinga Sjóvár, á vefnum Innherja á dögunum þá eiga aðrir eignarflokkar erfitt uppdráttar þegar ríkið er að gefa út jafnmikið af skammtímapappír á jafn háum vöxtum og raun ber vitni. Lánamál ríkisins gáfu þannig út ríkisvíxla fyrir meira en 60 milljarða á 9,4 prósenta vöxtum um daginn.

Agnar Tómas Möller, stjórnarmaður í Íslandsbanka, lýsir vandamálinu ágætlega. Í samtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum vikum sagði hann: „Það er hætt við að ruðningsáhrif ríkissjóðs á skuldabréfamarkaði geti orðið mikil næstu árin og því alls óvíst hvort kjör annarra útgefanda muni batna þegar og ef vaxtalækkunarferli hefst, ef fjárþörf ríkissjóðs er jafnmikil á sama tíma.“

Með öðrum orðum er fjármagnsþörf ríkisins slík að hún mun halda uppi vaxtakjörum og grafa undan fjármögnunarkjörum atvinnulífsins til lengri tíma litið. Það skiptir því sköpum að koma böndum á ríkisfjármálin sem fyrst. Það er mikilvægt að halda þessari staðreynd til haga á komandi kosningavetri og benda stjórnmálamönnum á þversögnina sem felst í að tala fyrir efnahagslegum stöðugleika og lægra vaxtastigi og stórfelldri aukningu ríkisútgjalda og skattahækkunum á sama tíma.

Ekki það að undið verði ofan af óábyrgri stjórn ríkisfjármála á einum vetri. Til þess er vandinn of stór. Fram undan eru stórir gjalddagar hjá ríkissjóði sem endurfjármagna þarf á mun verri kjörum en áður. Morgunblaðið hefur eftir Agnari að stjórnvöldum sé mikill vandi á höndum:

„Einkum í ljósi þess að á árinu 2025 og 2026 eru gríðarstórir gjalddagar auk víxlanna sem eru allt of dýr fjármögnun til að réttlæta til lengri tíma í jafnmiklum mæli. Að viðbættri lánsfjárþörf samkvæmt fjármálaáætlun, sem sé að miklu leyti óútfærð, gæti ríkissjóður því verið með hátt í 800 milljarða fjármögnunar- og endurfjármögnunarþörf næstu tvö árin, auk þess að óvissa er um uppgjör 230 milljarða króna covid-lánveitingar Íbúðalánasjóðs til ríkisins ef ætlunin er að setja sjóðinn í slit.“

Á sama tíma bendir allt til þess að hratt dragi nú úr kraftinum í hagkerfinu. Í nýrri greiningu Íslandsbanka er einungis spáð 0,4% hagvexti í ár í stað 0,9% eins og spáð var í maímánuði. Ástæðan fyrir lækkuninni eru lakari horfur í ferðaþjónustunni. Þetta mun hafa áhrif á skattheimtur ríkissjóðs og gera ofangreindan vanda enn erfiðari viðfangs.

Það er fyrirsjáanlegt að það muni þrengja að ríkisrekstrinum á næstu árum. Vandamálin sem af því hljótast verða ekki leyst með skattahækkunum heldur með aðhaldi og niðurskurði á ríkisútgjöldum. Það er eina færa leiðin til þess að draga úr ruðningsáhrifum ríkissjóðs á fjármálamörkuðum og leiða til bættra kjara fjárfestinga heimila og fyrirtækja. Því miður bendir fátt til þess að skilningur sé mikill meðal stjórnmálamanna á þessari grundvallarstaðreynd málsins.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 24. júlí 2024.