Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, sagði frá því í viðtali við Morgunblaðið að gríðarleg aukning hefði orðið í framrúðutjónum undanfarið. Taldi hann ástand vega, aðferðir við lagningu slitlags og skort á hreinsun gatna helstu orsakavalda.

Hrafnarnir efast ekki um að Hermann hafi rétt fyrir sér en þó má leiða líkur að því að hann hafi óvart skilið einn mögulegan orsakavald út undan í upptalningu sinni.

Eins og vart hefur farið fram hjá þeim sem horfa á sjónvarpsútsendingar í línulegri dagskrá eru tvö fyrirtæki sem skera sig úr í fjölda auglýsinga. Það eru Orka og Poulsen sem bæði auglýsa skipti og viðgerðir á framrúðum. Aukning í framrúðutjónum kann því einnig að skýrast af sérlega vel heppnuðum auglýsingaherferðum umræddra fyrirtækja.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.