Kennarar fylltu Háskólabíó í síðustu viku á baráttufundi og sungu meðal annars þjóðsöng Sovétríkjanna hástöfum þegar myndatökumann Ríkisútvarpsins bar að garði – svona rétt til þess að minna hvert vegferðinni er heitið.
En eru kennarar „þjáðir“ og „þekkja þeir skortsins glímutök“ í ríkari mæli en aðrir Íslendingar með háskólamenntun á vinnumarkaði? Það verður ekki séð af tölum og staðreyndum. Meðalheildarlaun í grunn- og framhaldsskólum eru ríflega ein milljón króna á mánuði. Þetta er í takt við meðalheildarlaun háskólamenntaðra sérfræðinga á almenna vinnumarkaðnum.
Þar að auki njóta kennarar og aðrir opinberir starfsmenn mun meiri réttinda en starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum. Vinnuvika opinberra starfsmanna er styttri, orlofið lengra og veikindaréttur þeirra er 360 dagar á ári meðan hann er þrír til sex mánuðir á almenna markaðnum. Við þetta bætist að starfsöryggi hinna fyrrnefndu er allt annað og meira.
Kennarar kjósa ekki að heyja kjarabaráttu sína á þessari forsendu. Þeir reyna að slá ryki í augu fólks með því að einblína á grunnlaunin þegar þeir fara fram á sömu kjör og sérfræðingar á almenna markaðnum. Slíkur samanburður er marklaus eins og Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, hefur útskýrt ágætlega:
„Mjög stór hluti háskólamenntaðra á almennum vinnumarkaði er á pakkalaunum þar sem öll yfirvinna er inni-falin í þeirra mánaðarlaunum. Því er ekki hægt að bera saman dagvinnulaun kennara við laun háskólamenntaðra vegna þess að það getur verið mun meiri og lengri vinnutími innifalinn í launum háskólamenntaðra á almennum vinnumarkaði. Auk þess eru margir kostnaðarliðir sem hvíla á opinberum vinnuveitendum umfram almenna og það er eðlilegt að horfa til þess kostnaðar þegar kjör eru borin saman.“
Með öðrum orðum þarf að líta til heildarlauna þegar kjör kennara og annarra á opinbera markaðnum eru borin saman við laun á almenna markaðnum. Þar hallar ekki á kennara nema síður sé.
Enda eru kröfur kennara í þessari kjaradeilu óljósar svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Kennarar boðuðu til verkfalls án þess að leggja fram formlega kröfugerð og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku ekki kjósa að tala um kröfur í þessum efnum heldur markmið.
Það er ekki furða að samninganefnd Samtaka íslenskra sveitarfélaga gangi erfiðlega að koma til móts við jafn óljósar kröfur og að ríkissáttasemjari geti lítið gert til að þoka málum áfram.
Það er því útlit fyrir langt verkfall og ekki bætir það úr skák að langur tími mun líða þangað til starfshæf ríkisstjórn verður mynduð eftir kosningar sem hefur burði til að skera á hnútinn. Þetta veit kennaraforystan og því er ábyrgð hennar mikil. Það er ekki nóg með að hún sé að reyna sitt ítrasta til að sprengja upp þá sátt sem myndaðist á vinnumarkaði heldur er hún að standa í vegi fyrir að fjöldi barna og unglinga fái lögbundna menntun.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar og Alþingis er einnig mikil. Öllum mátti vera ljóst að brýn þörf var á lagabreytingum þegar í ljós kom í fyrra að ríkissáttasemjari hefur ekki heimild til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu um miðlunartillögur sínar í kjaradeilum. Aðalsteinn Leifsson, þáverandi ríkissáttasemjari, lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og SA í fyrra en þurfti frá að hverfa þegar Efling hreinlega neitaði að afhenda
félagatalið sitt.
Þrátt fyrir að allir sanngjarnir menn væru sammála um að nauðsynlegt væri að ríkissáttasemjari gæti knúið fram atkvæðagreiðslu um tillögur sínar stóð Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi vinnumarkaðsráðherra og núverandi varaformaður Vinstri grænna, í vegi fyrir að slíkt frumvarp hefði verið lagt fram. Óumdeilt er að það hefði verið samþykkt í meðförum þingsins.
Þetta verður dýrkeypt því atkvæðagreiðsla um slíka miðlunartillögu hefði verið það eina sem hefði getað afstýrt því sem virðist nú vera óumflýjanlegt – langt kennaraverkfall. Það sama gildir um kjaradeilu lækna og ríkisins sem nú stendur yfir.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. nóvember 2024.