Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur átt betri vikur en þá er leið undir lok á laugardag. Vafalaust verri líka en það er önnur saga.
Ummæli hans um að viðskiptabankarnir hefðu gengið of bratt fram þegar þeir hækkuðu vexti á verðtryggðum fasteignalánum vöktu athygli. Þarna virðist seðlabankastjóri vera að tala gegn miðlunaráhrifum peningastefnunnar og verður það að teljast firn hin mestu.
Óumdeilt er að verðtryggð fjármögnun bankanna hefur hækkað mikið að undanförnu. Hveitið er orðið dýrara en brauðið skrifaði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, á dögunum. Niðurstöður síðustu útboða bankanna á sértryggðum skuldabréfum sem eru notuð til þess að fjármagna fasteignalán þeirra gefur tilefni til að álykta að verðtryggðir íbúðalánavextir komi til með að hækka enn frekar.
Ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að skuldabréfamarkaðurinn sendir frá sér misvísandi skilaboð um þessar mundir. Í fyrsta lagi að verðbólga sé á markvissri niðurleið og í öðru lagi að Seðlabankinn muni halda að sér höndum þegar kemur að vaxtalækkunum. Með öðrum orðum: raunvextir munu hækka enn frekar.
Umræðan um vaxtahækkanir bankanna hefur verið barnaleg í fjölmiðlum eins og oft vill vera þegar efnahags-
mál ber á góma. Það blasir við að bankar þurfa að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst til vegna veitingar fasteignalána. Rétt er að halda til haga að Seðlabanki Ásgeirs Jónssonar hefur ekki legið á liði sínu við að auka þann kostnað. Það gerðist þegar bankinn tók sér ígildi skattlagningarvalds þegar hann hækkaði vaxtalausu bindiskylduna fyrr á þessu ári. Sá kostnaður leitar meðal annars út í verðlagningu fasteignalána.
Þá voru ummæli Ásgeirs um stöðu byggingageirans undarleg. Hann sagði efnislega að raunvaxtastigið væri að hafa lítil áhrif á byggingageirann og endurspeglaðist það í lánatölum bankanna. Eins og Samtök iðnaðarins bentu á í kjölfar þessara ummæla þá virtist seðlabankastjóri þarna horfa til heildarlánveitinga til byggingageirans en ekki eingöngu til lánveitinga til bygginga íbúðarhúsnæðis.
Sem fyrr segir er staðan sú að litlar væntingar eru um að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti í þessari viku. Það er ekki vegna þess að ekki séu komnar fram efnislegar ástæður fyrir vaxtalækkun. Þær eru sannarlega til staðar.
Um mitt ár lýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því yfir að raunvaxtastigið væri nægilegt til að kveða niður verðbólguna. Síðan þá hafa raunvextir hækkað enn frekar. Svigrúmið ætti því að vera til staðar. En ástæðurnar fyrir að markaðurinn endurspeglar ekki væntingar um vaxtalækkanir enn sem komið er byggjast frekar á getgátum um að meðlimum peningastefnunefndarinnar sé frekar umhugað um eigin trúverðugleika en efnahagslegar staðreyndir. Ekki verður þó séð að trúverðugleiki nefndarinnar velti á því hvort vaxtalækkunarferlið hefjist í þessari viku eða í næsta mánuði.
Þegar litið er í baksýnisspegilinn er augljóst að peningastefnunefnd Seðlabankans hélt raunvöxtum neikvæðum í of langan tíma eftir að heimsplágan rann sitt skeið á enda. Á því má sýna vissan skilning enda er auðvelt að vera vitur eftir á. En líti einhver svo á að nefndin hafi misst við það ákveðinn trúverðugleika verður að benda hinum sömu á að hann verður ekki endurreistur með því að bregðast of seint við kólnuninni í hagkerfinu og áhrifum hinna gríðarháu raunvaxta.
Þessi leiðari birtist fyrst í blaðinu sem kom út 2. október 2024.